Íslenska matarkarfan er sú fjórða dýrasta í heimi, samkvæmt nýrri greiningu breska fjármálafyrirtækisins Money.

Greiningin náði til 38 landa og fyrir ofan Ísland á listanum eru Sviss, Suður-Kórea og Noregur.

Viðmiðunarvörurnar hér kostuðu samanlagt 25,45 pund, eða 4.438 krónur. Sömu vörur kostuðu 3.563 krónur í Danmörku, 3.130 í Svíþjóð og 2.431 í Bretlandi.

Í Sviss var verðið langhæst, 6.245 krónur.Í íslensku körfunni kostaði til að mynda mjólkurpotturinn 185 krónur, eggjatylft 694 krónur og kíló af kartöflum 320 krónur.

Þá var brauðhleifur af franskbrauði dýrastur í heimi hér á landi, á 432 krónur.