Í nýrri verðkönnun ASÍ hækkar matarkarfa fjögurra manna fjölskyldu um 1,5 prósent milli mánaða.
Þessar niðurstöður eru í samræmi við verðkönnun Veritabus í mars en hækkunin er meiri en hækkun matarliðarins í vísitölu neysluverðs, sem birt var í síðustu viku.
Veritabus reiknaði út hækkun vörukörfu út frá gögnum ASÍ. Vegin meðalhækkun vörukörfunnar síðustu sex mánuði er 6,5 prósent og óvissan 2,5 prósent.
Samkvæmt könnuninni virðist verð á grænmeti og ávöxtum hafa lækkað á tímabilinu. Þá virðast páskaegg hafa lækkað frá því í fyrra í flestum verslunum. Vegið meðalverð páskaeggja hefur lækkað um 3-4 prósent, mest í Hagkaup.
Samkvæmt ASÍ er talsverður vöruskortur í Bónus þar sem ASÍ segir að vantað hafi 35 af 165 vörum.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, aftekur með öllu að vöruskortur hafi verið í Bónus. Í langflestum tilfellum séu vörurnar til en í stærðum sem ASÍ taki einhverra hluta vegna ekki með.
Þá segir Guðmundur vörur á borð við Heimilisbrauð, frosinn heilan kjúkling og lambalæri hafa verið til í talsverðu magni þrátt fyrir fullyrðingar ASÍ um annað. Hið eina sem hafi vantað hafi verið græn vínber, sem hafi klárast og vantað hluta vikunnar.