Veritabus gerði í síðustu viku netkönnun á verðlagi matvæla og sýna niðurstöður að matvælaverð hefur hækkað um 6 prósent frá því að ASÍ gerði könnun fyrir 11 mánuðum, 25. mars 2021. Þetta er eins prósents meiri hækkun en orðið hefur á vísitölu neysluverðs á sama tímabili.

Óverulegar breytingar urðu á matvöruverði á tímabilinu mars – september 2021 og er því hækkunin frá því í september tæplega 6 prósent. Óvissa við mælinguna er 1 prósent.

Verð var kannað hjá þremur verslanakeðjum sem eru með öflugar netverslanir, Hagkaup, Nettó og Krónunni, auk Heimkaupa.

Veritabus kannaði verð vörukörfu sem samanstóð af 26 vöruliðum úr öllum vöruflokkum. Karfan var valin til að endurspegla innkaup fjögurra manna fjölskyldu. Eftirfarandi breytingar höfðu orðið frá könnun ASÍ í mars í fyrra:

Vegin meðalhækkun vörukörfunnar er 6 prósent +/- 1 prósent. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5 prósent. Verð matvöru hefur því hækkað hraðar en vísitala neysluverðs síðastliðna sex mánuði. Á tímabilinu mars – september 2021 hækkaði karfan um vel innan við eitt prósent.

Athyglisverðar niðurstöður

Athyglisverðar niðurstöður birtast þegar innbyrðis verðþróun verslana, sem mældar voru, er borin saman. Hagkaup virðist lítið sem ekkert hafa hækkað verð síðustu 11 mánuði, en vegin hækkun verðlags á matvöru hefur verið 6 prósent. Freistandi er að draga þá ályktun að fyrirtækið hafi breytt verðstefnu sinni.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins taka alvarlega ábyrgð sína gagnvart verðlagi í landinu. Ekki sé um breytta verðstefnu að ræða en mögulega sé meiri stöðugleiki í því sem Hagkaup er að gera en hjá öðrum.

„Við reynum að vanda okkur í því sem við erum að gera og erum ekki með nein brögð til að líta vel út í einstökum verðkönnunum. Við gerum okkur glögga grein fyrir því að við erum að vinna fyrir viðskiptavinina og viljum að þeir viti að hverju þeir ganga hjá okkur.“