Reykjavíkurborg staðfestir að leikskólinn Sælukot sé til skoðunar vegna kvartana og ábendinga um starfsemi þess. Brugðist verður við ýmist með bréfum, fundum eða eftirliti og í kjölfarið með tilmælum og kröfu um að gerðar verði úrbætur á því sem talið er ábótavant.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá fyrr í dag sendu fyrrverandi starfsmenn Sælukots frá sér ákall þar sem þess er krafist að skólanum verði lokað eða gerðar verulegar breytingar á starfsháttum hans. Í skýrslu sem kom út um leikskólann árið 2017 kom fram að mat á námi og velferð barna í Sælukoti var talið óviðunandi.

Borgin segir í tilkynningu í dag að rekstraraðilar og leikskólastjórar leikskólans beri ábyrgð á að grípa til viðeigandi aðgerða þegar upp koma einstaka mál eða athugasemdir gagnvart starfseminni. Hlutverk Reykjavíkurborgar sé að tryggja að viðeigandi úrbætur séu gerðar en borgin tekur sérstaklega fram að hún eigi ekki aðkomu að starfssambandi leikskólans við starfsfólks hans.

„Komi fram vísbendingar um að leikskóli fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum gengur Reykjavíkurborg úr skugga um hvort rétt sé og sér til þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar sé þess þörf,“ segir í tilkynningunni.

Leikskólinn Sælukot tekur við börnum frá 12 mánaða aldri til sex ára og starfar undir stefnu Ananda Marga, Ný-Húmanisma. Leikskólinn er vegan.

Sælukot er sjálfstætt starfandi leikskóli á vegum samtakanna Ananda Marga en samkvæmt Facebook síðu samtakanna er um að ræða „eitt elsta jógafélag á Íslandi“. Systrasamtök Ananda Marga reka leikskólann Sælukot sem byggir á jógahugmyndafræðinni.

Framkvæmt var ytra mat á Sælukoti árið 2017 og má hér sjá skýrslu vegna matsins. Þrír þættir í starfi leikskólans voru taldir óviðunandi; leikskólaþróun og símenntun, opinber birting og umbætur og mat á námi og velferð barna.

Opinber birting og umbætur féll undir „óviðunandi verklag“. Starfsánægja féll undir „mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf“.
Mynd: úr matskýrslu á skólastarfi Sælukots frá 2017.