Matvælastofnun segist vera með mál vegna velferð búfjár á bænum Nýjabæ í Borgarfirði til meðferðar. Á meðan málið sé í vinnslu sjái stofnunin til þess að allir gripir búsins hafi aðgang að nægu heyi og vatni.

Mikil umræða hefur átt sér stað vegna vanrækslu á dýrunum á bænum. Vanrækslan leiddi meðal annars til þess að MAST sendi tólf hross í sláturhús og aflífaði eitt folald á staðnum við eftirlit á þar um miðjan október.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Dýraverndunarsamband Íslands (DÍS) teldi MAST vera bregðast dýrunum á bænum. Stofnunin hafi ekki brugðist við ítrekuðum fyrirspurnum samtakanna og ekki brugðist við þegar DÍS hafi sent þeim uppfærðar upplýsingar um ástand þeirra. Dýrin væru hálf vatnslaus og fóðrið ónýtt.

Í tilkynningu frá MAST segir jafnframt að stofnunin geti ekki tjáð sig um þær aðgerðir sem unnið er að vegna stjórnsýslu- og persónuverndarlaga.

„Af þeim sökum er fréttaflutningur og umfjöllun á samfélagsmiðlum einhliða. Í einhverjum tilfellum hafa rangar ályktanir komið fram sem gerir það að verkum að almenningur fær ekki rétta mynd af stöðu mála og þeim afskiptum sem stofnunin hefur haft af búrekstrinum,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

MAST ítrekar að ábyrgð á dýravelferð liggi ávallt hjá eiganda dýranna sem beri að tryggja aðbúnað, heilsu og velferð dýra sinna.

„Hlutverk Matvælastofnunar er hins vegar að sjá til þess að dýraeigandi sinni skyldum sínum og grípi til aðgerða ef svo er ekki. Við þær aðstæður er í forgangi að dýrum sé komið til hjálpar, en áframhaldandi úrvinnsla málsins fer eftir þeim lagaramma sem stofnuninni starfar eftir,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Formaður DÍS, Linda Karen Gunnarsdóttir, sagði kerfið vera bregðast dýrunum í gær. Samtökin hafi sent fyrirspurn á MAST fyrir þremur dögum síðan þar sem kallað var eftir viðbrögðum vegna ástandsins en að engin svör hafi borist.