Matvælastofnun hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um starf stofnunarinnar, þá sérstaklega hvað varðar mál vanræktra hesta í Borgarfirði. Í tilkynningunni segist MAST sjá sig til neydda að birta andsvör.

„Vegna óvæginnar orðræðu í garð starfsfólks stofnunarinnar sér stofnunin sig þó knúna að grípa til nokkurra andsvara og reyna að skýra verkferla sína frekar og fara almennt yfir þær raðir aðgerða sem gripið er til í málum er varða velferð dýra, þótt ekki séu þær ávallt sýnilegar almenningi.“ segir í yfirlýsingu MAST.

Mikil umræða um starf stofnunnarinnar, bæði í fjölmiðlum sem og í almennri umræðu, hefur verið til staðar um síðustu misseri. Nefna mætti viðtal Fréttablaðisns við tvo borgfirðinga á dögunum þar sem viðmælandi sakaði stofnunina um að „fría sig alla á­byrgð og segjast alltaf vera með þetta í eftir­liti.“

„Stjórnsýslulög kveða á um að stjórnvald skuli beita vægasta úrræði hverju sinni til að ná fram úrbótum, og er stofnuninni skylt að fara eftir skýrum verkferlum í slíkum málum. Komi upp mál er varða velferð dýra fá umsjáraðilar þeirra fyrst tækifæri til að bregðast við ábendingum um nauðsynlegar úrbætur. Sé ekki brugðist við þeim ábendingum sem skyldi hefur MAST heimild til að beita þvingunum til að knýja fólk til úrbóta,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Þá er fjallað um vörslusviptingu, sem hefur verið notuð í málinu í Borgarnesi. MAST segir að um sé að ræða alvarlega aðgerð og að eingöngu sé gripið til hennar að vel ígrunduðu máli. Þá þurfi aðrar leiðir að vera fullreyndar. „Eins og komið hefur fram í því máli sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu hefur búfé verið fært úr vörslu umráðamanns. Ekki er um fyrstu aðgerðir MAST að ræða í því máli.“ segir í tilkynningunni.

Í lok yfirlýsingarinnar er bent á að Ríkisendurskoðun hafi hafið úttekt á störfum MAST, varðandi hvort stofnunin lúti að eftirliti með velferð dýra. „Stofnunin fagnar úttektinni og komi í ljós að eitthvað megi betur fara verður verklagi breytt. Fram að því mun stofnunin áfram vinna eftir skráðu og útgefnu verklagi við eftirlit, eftirfylgni, beitingu þvingana og refsinga.“