Rannsókn sem bæði Ísteka og Matvælastofnun vísa í þegar talað er um að blóðtaka hafi ekki neikvæð áhrif á heilsu blóðmera er frá árinu 1982 og birtist í tímaritinu Frey sem gefið var út af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi Bænda.

Þetta staðfestir Arnþór Guðlaugsson, forstjóri Ísteka, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins. Hann segir að ítrekaðar rannsóknir Ísteka síðan hafi staðfest upprunalegu rannsóknina frá 1982 en hann hefur ekki sent Fréttablaðinu afrit af nýlegum rannsóknum.

Segja reynsluna staðfesta fyrstu rannsóknina

Þegar Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, lagði fram frumvarpið sitt til að banna blóðmerahald í fyrra sendi bæði Ísteka og MAST inn umsögn um að rannsóknir hafi sýnt fram að framkvæmd blóðtöku hér á landi hafi ekki neikvæð áhrif á heilsu hryssa og stangist ekki á við lög um velferð dýra.

„Reglulega er fylgst með blóðbúskap hryssnanna og sýna þær rannsóknir að blóðtakan, eins og hún er framkvæmd hér á landi, er innan ásættanlegra marka fyrir heilsu þeirra og velferð og hryssurnar eiga auðvelt með að vega upp blóðtapið,“ sagði í umsögn MAST sem Sigurjón Njarðarson, lögfræðingur dýraheilsu, undirritaði.

Fréttablaðið hefur óskað eftir afriti af rannsóknum sem gerðar hafa verið og svaraði Arnþór hjá Ísteka:

„Upprunalega rannsóknin sem vísað er til þarna og ég vísaði m.a. til í nýlegri grein á Vísi finnur þú í tölublaði 78 af Frey frá árinu 1982, bls 472-476. Ítrekaðar rannsóknir Ísteka síðan og reynsla af hundruð þúsunda blóðtaka hafa staðfest upprunalegu rannsóknina.“

Blóðtökubás frá árinu 1982. Myndin birtist í greininni sem Eggert Gunnarsson skrifaði.
Mynd: Freyr

Starfsmaður Ísteka höfundur greinarinnar

Eggert Gunnarsson dýralæknir er höfundur greinarinnar en hann hefur sinnt dýravelferðaeftirliti fyrir líftæknifyrirtækið Ísteka, eina fyrirtækið sem hefur leyfi til að taka blóð úr fylfullum hryssum til vinnslu afurða. Að athuguninni komu einnig Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum og Þorsteinn Ólafsson dýralæknir sem starfaði lengi hjá Matvælastofnun.

Í greininni er fjallað um áhrif blóðtökunnar á hryssur, hegðun þeirra og folöld en Eggert hafði á þeim tíma sinnt 4000 blóðtökum á þremur árum.

„Yfirleitt verður þeim lítið um. Sumar vilja þó híma dálítið fyrst á eftir og taka ekki í jörð. Einstaka hryssur virðast kenna einhverra ónota, sem lýsa sér í því að þær leggjast, velta sér yfir hrygg og liggja um hríð marflatar,“ skrifar Eggert.

„Við höfum séð þess nokkur dæmi að hryssur hafi orðið afvelta fljótlega eftir blóðtöku. Undirstrikar þetta aðeins nauðsyn þess að vel sé fylgst með hryssunum a.m.k. fyrsta sólarhringinn eftir blóðtöku.“

Eggert Gunnarsson dýralæknir sem starfar hjá Ísteka. Hér sést hann með blóðbrúsa eftir blóðtöku sennilega árið 1982.
Mynd: Freyr

„Við höfum séð þess nokkur dæmi að hryssur hafi orðið afvelta fljótlega eftir blóðtöku. Undirstrikar þetta aðeins nauðsyn þess að vel sé fylgst með hryssunum a.m.k. fyrsta sólarhringinn eftir blóðtöku.“

Bendir Eggert á í greininni að folaldsmerum hætti við að klumsa séu þær settar í aðhald en gegn því megi sporna með því að forðast allan hamagang og læti, hafa aldrei fleiri en 20 til 30 hryssur inni í rétt eða húsi í senn og sjá til þess að þær hafi nægan aðgang að drykkjarvatni.

„Ekki höfum við séð þess nein merki að hryssur hafi lagt af vegna blóðtökunnar, en vitaskuld ber að gjalda varhuga við að taka þeim hryssum blóð sem eru illa framgengnar og þunnholda.“

Slys geti alltaf orðið þegar átt er við ótamin hross en hryssurnar séu tryggðar af kaupanda blóðsins gegn hvers kyns skakkaföllum sem þær verða fyrir á blóðtökutímabilinu og rekja má til blóðtökunnar. Á þessum tíma var allt blóð úr fylfullum merum selt til Danmerkur þar sem það var fullunnið.