Matvælastofnun fylgist með þróun faraldurs apabólu sem nú geisar í Evrópu með tilliti til smithættu fyrir menn og dýr.

Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir MAST, segir að apabóla geti smitast úr mönnum í dýr en það sé margt óvitað um sjúkdóminn eins og stendur.

„Þetta er sjúkdómur sem er að smitast á milli manna og dýra en það er samt ekki alveg vitað hvaða dýr eru móttækileg eða réttara sagt hvaða dýr eru ekki móttækileg“ segir Vigdís og bætir við

Sérfræðingar í Bretlandi hafa nú þegar sagt að flytjist veiran í gæludýr geti það orðið til þess að veiran verði landlæg í Evrópu. Það myndi þýða regluleg tilfelli af sýkingum milli dýra sem gæti orðið uppspretta af smitum í menn.

„Fræðilega séð getur þetta farið í gæludýr og önnur dýr sem veikir umgangast. Það sagt þá eru ekki komnar neinar tilkynningar eða nein skráð tilfelli um svoleiðis í þessum faraldri í Evrópu. Við erum bara að fylgjast með stöðunni og erum enn mjög róleg yfir þessu hvað varðar dýrin.“ Segir Vigdís.

„En auðvitað ef að einstaklingur veikist þá eru tilmælin sú að viðkomandi haldi sig frá dýrum þar sem þau geta mögulega tekið þetta upp frá okkur.“ bætir hún við.

Sóttvarnarlæknir gefur út leiðbeiningar fyrir almenning

Embætti landlæknis hefur gefið út almennar upplýsingar um apabólu og hvernig forðast megi smit af apabólu. Meðal þess sem tekið er fram er að forðast skuli samneyti við dýr ef grunur leikur á smiti.

Tekið er fram að sjúkdómurinn komi yfirleitt fram 1-2 vikum eftir að hann smitast en meðgöngutími getur farið upp í 3 vikur. Einkenni séu flensulík fyrstu 2-3 dagana en eftir það byrji vökvafylltar blöðrur að myndast. Útbrotum geti svipað til hlaupabólu eða sárasóttar en það sem greinir apabólu að frá þessum sjúkdómum er að útbrotin eru alltaf öll á sama stigi í ferlinu.

Alvarleg veikindi séu mjög sjaldgæf eða í minna en 10% tilfella og oftast gangi sjúkdómurinn yfir af sjálfu sér án meðferðar.

Meðal þess sem kemur fram til að minnka líkur á smiti er að:

  • Forðast kynlíf með mörgum ókunnugum einstaklingum.
  • Fara í einangrun ef þú færð einkenni sem bent geta til apabólu og hafa samband við heilsugæsluna símleiðis.
  • Sinna handhreinsun og þrifum á sameiginlegum snertiflötum.
  • Fylgja leiðbeiningum um smitgát ef þú hefur verið í nánd við einstakling sem síðan greinist með apabólu 1–2 dögum síðar.