Lang­þráður draumur rit­höfundarins Braga Páls Sigurðs­sonar breyttist í mar­tröð þegar hann komst að því að röng út­gáfa af fyrstu bók hans, Austur, hafði farið í prent. „Ó­próf­arkar­lesið upp­kast, sem fór í prufu-um­brot nokkrum vikum áður en bókin var prentuð, var fyrir slysni sent í prent­smiðjuna í staðinn fyrir rétta hand­ritið,“ sagði Bragi Páll í sam­tali við Frétta­blaðið

Á­kveðið sorgar­ferli ein­kenndi vikurnar eftir að bókinni var dreift í allar bóka­búðir landsins og hand­ritið sent á til­nefningar­nefndir. „Ég viður­kenni að ég grét bara næstum þegar ég komst að þessu.“ Hann tekur þó fram að það sé engum að einum að kenna að gölluð bók hafi verið gefin út. „Það er engin spennu­saga hvernig svona gerist, bara mann­leg, mjög skiljan­leg mis­tök.“

Skipta bókinni út í dag

Í dag leit rétt prentun bókarinnar þó loks dagsins ljós í formi mjúkrar kilju. „Hún er ekki alveg eins fal­leg og orð­ljóta, stóra harð­spjalda-systirin, en hún er þó fal­legri að innan.“ Út­gáfunni fylgja þó blendnar til­finningar þar sem ó­kláraða hand­ritið hafi aftrað för bókarinnar í jóla­bóka­flóðinu.

„Það þurfti að stöðva alla gagn­rýni á bókinni,“ segir Bragi og bætir við að ekki hafi komið í ljós að rangt hand­rit hafi farið í prentun fyrr en gagn­rýnandi Morgun­blaðsins tjáði sig um málið við út­gefanda.

Hér má sjá bækurnar tvær, fallega afstyrmið og prófarkalesnu kiljuna.

Núll á staf­setningar­prófi

„Maður vill auð­vitað að gagn­rýnin sé um efnið en ekki út­litið og á­ferðina en það hefur að sjálf­sögðu á­hrif á upp­lifunina að bókin sé upp­full af inn­sláttar- og starf­setningar­villum.“ Inni­haldið falli í skuggann þegar les­endur reka augun í villurnar.

„Það er líka svo vand­ræða­legt að allar þessar villur sem séu þarna úti fyrir fólk að hlægja af.“ Það sé stöðug bar­átta meðal skálda að reyna að fela fyrir fólki að staf­setningin sé ekki upp á tíu. „Það er svo mikill mis­skilningur að rit­höfundar séu þeir sem hafa alltaf fengið tíu í ís­lensku og aldrei fengið núll í staf­setningar­prófi.“ Bragi segist vera lifandi dæmi þess, enda er honum minnis­stætt þegar hann hlaut núll í ein­kunn fyrir staf­setningu.

„Það er líka svo vand­ræða­legt að allar þessar villur sem séu þarna úti fyrir fólk að hlægja af.“

Ó­líkar bækur með sömu kápu

Ör­lögin hafa nú séð til þess að al­þjóð gefst nú færi á að rann­saka staf­setningar­færni Braga og bera saman ó­kláraða og til­búna skáld­sögu. „Það sem gerist á síðustu metrunum, kannski fjórar fimm vikur fyrir prent­skil, er að fín­pússið fer í gang og allar smá­vægi­legu breytingarnar eru fram­kvæmdar.“ Allir les­endur fái þar með sömu sögu en blæ­brigða­munurinn fari ekki á milli mála að mati höfundar.

„Þetta er svona eins og þegar maður á eftir að fara með fínasta sand­pappírinn og lakka, lítur út eins og sami hluturinn en ekki það sem maður vill sýna heiminum.“ Tvær ó­líkar bækur með sömu kápu. Fólk geti þannig valið um hálf­kláraða eða full­búna skáld­sögu.

Rithöfundarnir Bragi Páll og Bergþóra Snæbjörnsdóttir ásamt börnum sínum.
Fréttablaðið/Sigtryggur

Líf­eyrir fyrir safnara

Með gölluðu út­gáfunni fæddist þó sam­stundis safn­gripur enda ó­al­gengt að höfundar leyfi les­endum að fylgjast með síðustu skrefum hand­ritsins. „Ég er mikið að reyna að selja þetta þannig að þeir sem eiga harð­spjalda út­gáfuna séu í rauninni komnir með líf­eyri og geti selt hana í forn­bóka­sölum og lagst í helgan stein eftir nokkra ára­tugi.“

Þeim sem fjár­festa í báðum út­gáfum bjóðast flestir mögu­leikar að sögn höfundar enda hægt að nýta bókina á marga vegu. „Ég hef lent í því að fólkið sem las harð­spjalda­út­gáfuna og fann ekki inn­sláttar­villurnar væri svo­lítið móðgað yfir því að hafa ekki fundið neitt.“ Þannig væri hægt að nýta bækurnar saman sem skemmti­lega gesta­þraut eða jafn­vel drykkju­leik í jóla­boðunum.

For­vitnir les­endur eru því ein­dregið hvattir til að festa kaup á bæði fal­lega af­styrminu og próf­arka­lesnu kiljunni sem allra fyrst.