Landsréttur staðfesti nýverið úrskurð héraðsdóms um að systurnar Emilía Björg og Sjöfn Björnsdætur geta ekki skorast undan því að mæta í skýrslutöku til að svara fyrir fjármálagerninga Lyfjablóms ehf.
Systurnar, eru báðar fyrrverandi hluthafar og stjórnarmenn í Lyfjablómi ehf., áður Björn Hallgrímsson ehf., sem var á sínum tíma með stærri eignahlutafélögum á Íslandi. Núverandi eigendur Lyfjablóms ehf. hafa krafist þess að systurnar svari fyrir fjármálagerninga félagsins fyrir hrun en þær hafa neitað að mæta í vitnaskýrslu.
Lyfjablóm ehf., áður Björn Hallgrímsson ehf., var á tímabili í eigu fjögurra barna Björns Hallgrímssonar; Kristins, Emilíu Bjargar, Sjafnar og Áslaugar.
Björn Hallgrímsson ehf. var, í gegnum fjölmörg dótturfélög, stór hluthafi í Skeljungi, Árvakri, Nóa-Síríus og Sjóvá. Ásamt því að hafa verið stór hluthafi í Straumi-Burðarási en selt hlut sinn úr félaginu vorið 2006 fyrir á annan tug milljarða sem greitt var fyrir með hlutabréfum í FL Group hf. og Kaupþingi banka hf.
Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms, segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi verið ljóst frá upphafi að systrunum yrði gert að gefa skýrslu fyrir dómi og segir einungis að um töf hafi verið að ræða af hálfu varnaraðila.
„Þær varnir sem hafa komið fram hafa að okkar mati verið algjörlega haldlausar og einvörðungu til þess fallnar til þessa að drepa málið og tefja meðferðina,“ segir Jón Þór.
„Niðurstaða kærunnar til Landsréttar var fyrirsjáanleg. Þeim hugnast að tefja málið eins og hugsast getur en að hálfu sóknaraðila er einungis verið að fara eftir þeim lagabókstaf sem er í gildi.“
Ragnar H. Hall, lögmaður systranna óskaði eftir því í kjölfarið að spurningarnar sem Lyfjablóm ætlaði að beina að systrunum yrðu gefnar fyrirfram. Því var hafnað og segir Jón Þór það afar óvenjulegt að biðja um spurningar sóknaraðila fyrirfram.
Ekki er búið að ákveða dagsetningu fyrir skýrslutökuna fyrir dómi en Jón Þór segir að hugsanlega muni kórónuveiran hafa einhver áhrif á hvenær skýrslutakan muni endanlega fara fram.
„Varnir gagnaðila miðuðust við það að systurnar, sem voru eigendur og stjórnarmenn í félaginu, þyrftu ekki að bera vitni fyrir dómi. Á meðan að markmið umbjóðanda míns hafa verið einvörðungu að leiða hið sanna og rétta í ljós. Það er raunar með hreinustu ólíkindum að það hafi verið tekið til ítrustu varna, allir frestir og allt gert til þess að koma í veg fyrir það að stjórnarmenn í Lyfjablómi ehf. eða Birni Hallgrímssyni, myndu bera vitni um sannleika einstakra fjármálagerninga,“ segir Jón Þór.

„Þetta eitthvað sem maður hefði talið ljóst að ætti að vera í þágu allra aðila. Það ætti ekki að vera neitt að fela. Þær varnir sema hafa verið hafðar fram og þeir snúningar sem hafa verið teknir í því skyni að ndra það að menn geti spurt einfaldra spurninga um hvað fór fram, hvaða ákvörðunartöku lágu fyrir. Hvers vegna er verið að reyna hindra það að sannleikurinn komi fram?“ segir Jón Þór.
„En dómstólarnir hafa talað og það er von umbjóðanda míns að sannleikurinn fái að koma fram,“ segir Jón Þór enn fremur.
Núverandi eigendur Lyfjablóms ehf. eru að krefjast skýrslutöku yfir systrunum til að leita sönnunar á margvíslegum atvikum er gerðust í rekstri félagsins, þ.m.t. milljarða skammtímalána sem voru tekin í félaginu sem að sögn Lyfjablóms voru tekin án vitundar einstakra stjórnarmanna og ráðstafað til ýmissa gerninga sem ekki voru kynntir á stjórnarfundum í félaginu. Meðal annars yfirfærslur ýmissa eigna félagsins án endurgjalds yfir til fjárfestingafélagsins Gnúps ásamt fleiri atriðum sem tengjast rekstri félagsins.
Lyfjablóm höfðaði skaðabótamál á hendur Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu G. Pétursdóttur vegna svonefndrar Þúfubjargsfléttu og hlutafjáraukningar í Gnúpi í nóvember 2007.
Þann 6. desember 2019 voru Þórður og Sólveig sýknuð af öllum kröfum Lyfjablóms á grundvelli ætlaðra tómlætis- og fyrningarsjónarmiða. Landsréttur mun hlusta á munnlegan málflutning í því máli þann 20. október næstkomandi.