Lands­réttur stað­festi ný­verið úrskurð héraðsdóms um að systurnar Emilía Björg og Sjöfn Björns­dætur geta ekki skorast undan því að­ mæta í skýrslu­töku til að svara fyrir fjár­mála­gerninga Lyfja­blóms ehf.

Systurnar, eru báðar fyrr­verandi hlut­hafar og stjórnar­menn í Lyfja­blómi ehf., áður Björn Hall­gríms­son ehf., sem var á sínum tíma með stærri eigna­hluta­fé­lögum á Ís­landi. Nú­verandi eig­endur Lyfja­blóms ehf. hafa krafist þess að systurnar svari fyrir fjár­mála­gerninga fé­lagsins fyrir hrun en þær hafa neitað að mæta í vitna­skýrslu.

Lyfja­blóm ehf., áður Björn Hall­gríms­son ehf., var á tíma­bili í eigu fjögurra barna Björns Hall­gríms­sonar; Kristins, Emilíu Bjargar, Sjafnar og Ás­laugar.

Björn Hall­gríms­son ehf. var, í gegnum fjöl­mörg dóttur­fé­lög, stór hlut­hafi í Skeljungi, Ár­vakri, Nóa-Síríus og Sjó­vá. Á­samt því að hafa verið stór hlut­hafi í Straumi-Burðar­ási en selt hlut sinn úr fé­laginu vorið 2006 fyrir á annan tug milljarða sem greitt var fyrir með hluta­bréfum í FL Group hf. og Kaup­þingi banka hf.

Jón Þór Óla­son, lög­maður Lyfja­blóms, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að það hafi verið ljóst frá upp­hafi að systrunum yrði gert að gefa skýrslu fyrir dómi og segir einungis að um töf hafi verið að ræða af hálfu varnaraðila.

„Þær varnir sem hafa komið fram hafa að okkar mati verið al­gjör­lega hald­lausar og ein­vörðungu til þess fallnar til þessa að drepa málið og tefja með­ferðina,“ segir Jón Þór.

„Niður­staða kærunnar til Lands­réttar var fyrir­sjáan­leg. Þeim hugnast að tefja málið eins og hugsast getur en að hálfu sóknar­aðila er einungis verið að fara eftir þeim laga­bók­staf sem er í gildi.“

Ragnar H. Hall, lög­maður systranna óskaði eftir því í kjöl­farið að spurningarnar sem Lyfjablóm ætlaði að beina að systrunum yrðu gefnar fyrir­fram. Því var hafnað og segir Jón Þór það afar ó­venju­legt að biðja um spurningar sóknaraðila fyrirfram.

Ekki er búið að ákveða dagsetningu fyrir skýrslutökuna fyrir dómi en Jón Þór segir að hugsan­lega muni kórónu­veiran hafa ein­hver á­hrif á hve­nær skýrslutakan muni endan­lega fara fram.

„Varnir gagn­aðila miðuðust við það að systurnar, sem voru eig­endur og stjórnar­menn í fé­laginu, þyrftu ekki að bera vitni fyrir dómi. Á meðan að mark­mið um­bjóðanda míns hafa verið ein­vörðungu að leiða hið sanna og rétta í ljós. Það er raunar með hreinustu ó­líkindum að það hafi verið tekið til ítrustu varna, allir frestir og allt gert til þess að koma í veg fyrir það að stjórnar­menn í Lyfja­blómi ehf. eða Birni Hall­gríms­syni, myndu bera vitni um sann­leika ein­stakra fjár­mála­gerninga,“ segir Jón Þór.

Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms ehf.

„Þetta eitt­hvað sem maður hefði talið ljóst að ætti að vera í þágu allra aðila. Það ætti ekki að vera neitt að fela. Þær varnir sema hafa verið hafðar fram og þeir snúningar sem hafa verið teknir í því skyni að ndra það að menn geti spurt ein­faldra spurninga um hvað fór fram, hvaða á­kvörðunar­töku lágu fyrir. Hvers vegna er verið að reyna hindra það að sann­leikurinn komi fram?“ segir Jón Þór.

„En dóm­stólarnir hafa talað og það er von um­bjóðanda míns að sann­leikurinn fái að koma fram,“ segir Jón Þór enn fremur.

Nú­verandi eig­endur Lyfja­blóms ehf. eru að krefjast skýrslu­töku yfir systrunum til að leita sönnunar á margvíslegum atvikum er gerðust í rekstri félagsins, þ.m.t. milljarða skammtímalána sem voru tekin í félaginu sem að sögn Lyfjablóms voru tekin án vitundar einstakra stjórnarmanna og ráðstafað til ýmissa gerninga sem ekki voru kynntir á stjórnarfundum í félaginu. Meðal annars yfirfærslur ýmissa eigna félagsins án endurgjalds yfir til fjárfestingafélagsins Gnúps ásamt fleiri atriðum sem tengjast rekstri félagsins.

Lyfja­blóm höfðaði skaða­bóta­mál á hendur Þórði Má Jóhannes­syni og Sól­veigu G. Péturs­dóttur vegna svo­nefndrar Þúfu­bjargs­fléttu og hluta­fjár­aukningar í Gnúpi í nóvember 2007.

Þann 6. desember 2019 voru Þórður og Sól­veig sýknuð af öllum kröfum Lyfja­blóms á grund­velli ætlaðra tóm­lætis- og fyrningar­sjónar­miða. Landsréttur mun hlusta á munnlegan málflutning í því máli þann 20. október næstkomandi.