Fyrrum skjólstæðingar meðferðarheimilisins Laugalands og aðstandendur þeirra hafa opnað vefsíðu þar sem þau deila frásögnum sínum um hvernig meðferðarheimilið bjargaði lífi þeirra. Síðan ber nafnið Laugaland bjargaði mér og er komið á fót til að gagnrýna ákvörðun yfirvalda um að hætta starfsemi meðferðarheimilisins.
Þann 20. janúar tilkynnti forstöðumaður meðferðarheimilisins starfsmönnum sínum að hann hafi tilkynnt Barnaverndarstofu að hann muni hætta starfsemi meðferðarheimilisins þann 30. júní næstkomandi.
„Góð meðferðarheimili á Íslandi eru veigamikil í lífi barna með fjölþættan vanda. Lokun þessa heimilis getur svipt börnum tækifæri til þess að vinna úr sínum sínum málum og koma lífi sínu í réttar skorður,“ segir á upphafsíðu vefsíðunnar.
Á þeim skamma tíma sem vefsíðan hefur verið opin hafa frásagnir aðstandenda og skjólstæðinga hrannast inn.
„Engin úrræði dugðu fyrir mig, sama hvert ég fór“
Á síðunni má lesa ótrúlegar frásagnir þeirra sem hafa leitað til Laugalands og hvernig meðferðarheimilið kom þeim til bjargar á erfiðum tímum.
„Markmið mitt frá 12 ára aldri var að deyja fyrir 18 ára afmælið mitt. Ég byrjaði ung að drekka og nota fíkniefni,“ skrifar Sylvía sem er 25 ára gömul.
„Engin úrræði dugðu fyrir mig, sama hvert ég fór náði enginn til mín, þá truflaði það mig að vera í meðferðum með strákum og/eða á Höfuðborgarsvæðinu. Það var ekki fyrr en ég var send á Laugaland að ég fékk viðeigandi aðstoð og úrræði sem var sérsniðið fyrir mig. Þar fann ég fyrir öryggi,“ skrifar Sylvía sem þakkar jafnframt starfsfólki Laugalandas fyrir að vera á lífi í dag.
„Starfsfólkið hjálpaði mér að sjá loksins framtíð. Ég er þakklát fyrir að hafa farið á Laugaland. Þau kenndu mér að lifa og gáfu mér þá hjálp sem ég þurfti. Ég fékk hjálp frá þeim fyrir 10 árum og er í dag menntuð og með bílpróf, án þeirra tóla sem ég fékk frá þeim væri ég ekki hér í dag,“ skrifar Sylvía.

„Þar fékk ég frið til að þroskast og finna sjálfa mig“
Auður sem er 26 ára tekur í sama streng en hún segist 16 ára hafa komið inn á Laugaland vegna andlega veikinda.
„Það vissi enginn nákvæmlega hvert hægt væri að setja mig en sem betur fer var geðlæknirinn minn og foreldrar mínir sammála um að berjast fyrir því að koma mér á Laugaland,“ skrifar Auður sem þakkar jafnframt starfsfólki Laugalands fyrir viðhorf sitt.
„Þar fékk ég frið til að þroskast og finna sjálfa mig og hvernig ég vildi vera. Ég tel, að það að Laugaland sé eingöngu fyrir stúlkur hafði stóran hluta í því hve vel þetta úrræði virkaði fyrir mig. Starfsfólkið var hvetjandi og leyfði mér að prófa mig áfram þetta ár sem ég var þarna t.d. með að fara í menntaskóla og fá bílpróf.“
Ónafngreindur starfsmaður sem starfaði í fimm ár á Laugalandi segir að þó skjólstæðingarnir hafi margar verið ósáttar að þurfa innritast voru þær nær undantekningalaust sorgmæddar þegar þær voru útskrifaðar. „Ástæðan var sú að starfið var unnið af hugsjón og haft að leiðarljósi að búa þeim heimili á meðan á dvölinni stóð. Þetta er starfsemi sem má ekki hætta. Hún bjargar mannslífum,“ skrifar starfsmaðurinn.
Starfsfólk Laugalands sendu áskorun til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra og Heiðu Bjargar Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu á laugardaginn um að finna leið til að halda starfsemi meðferðarheimilisins gangandi.
Að mati starfsmannanna er með þessari ákvörðun verið að fækka úrræðum fyrir nú þegar viðkvæman hóp.
Hægt er að lesa frásagnir skjólstæðinga, aðstandenda og fagfólks hér.