Fyrrum skjól­stæðingar með­ferðar­heimilisins Lauga­lands og að­stand­endur þeirra hafa opnað vefsíðu þar sem þau deila frá­sögnum sínum um hvernig með­ferðar­heimilið bjargaði lífi þeirra. Síðan ber nafnið Laugaland bjargaði mér og er komið á fót til að gagnrýna ákvörðun yfirvalda um að hætta starfsemi meðferðarheimilisins.

Þann 20. janúar til­kynnti for­stöðu­maður með­ferðar­heimilisins starfs­mönnum sínum að hann hafi tilkynnt Barnaverndarstofu að hann muni hætta starf­semi með­ferðar­heimilisins þann 30. júní næstkomandi.

„Góð með­ferðar­heimili á Ís­landi eru veiga­mikil í lífi barna með fjöl­þættan vanda. Lokun þessa heimilis getur svipt börnum tæki­færi til þess að vinna úr sínum sínum málum og koma lífi sínu í réttar skorður,“ segir á upphafsíðu vefsíðunnar.

Á þeim skamma tíma sem vefsíðan hefur verið opin hafa frásagnir aðstandenda og skjólstæðinga hrannast inn.

„Engin úr­ræði dugðu fyrir mig, sama hvert ég fór“

Á síðunni má lesa ó­trú­legar frá­sagnir þeirra sem hafa leitað til Lauga­lands og hvernig með­ferðar­heimilið kom þeim til bjargar á erfiðum tímum.

„Mark­mið mitt frá 12 ára aldri var að deyja fyrir 18 ára af­mælið mitt. Ég byrjaði ung að drekka og nota fíkni­efni,“ skrifar Sylvía sem er 25 ára gömul.

„Engin úr­ræði dugðu fyrir mig, sama hvert ég fór náði enginn til mín, þá truflaði það mig að vera í með­­ferðum með strákum og/eða á Höfuð­­borgar­­svæðinu. Það var ekki fyrr en ég var send á Lauga­land að ég fékk við­eig­andi að­­stoð og úr­­ræði sem var sér­­­sniðið fyrir mig. Þar fann ég fyrir öryggi,“ skrifar Sylvía sem þakkar jafnframt starfsfólki Laugalandas fyrir að vera á lífi í dag.

„Starfs­­fólkið hjálpaði mér að sjá loksins fram­­tíð. Ég er þakk­lát fyrir að hafa farið á Lauga­land. Þau kenndu mér að lifa og gáfu mér þá hjálp sem ég þurfti. Ég fékk hjálp frá þeim fyrir 10 árum og er í dag menntuð og með bíl­­próf, án þeirra tóla sem ég fékk frá þeim væri ég ekki hér í dag,“ skrifar Sylvía.

Skjáskot af vefsíðunni sem fór í loftið í dag.
Ljósmynd/skjáskot

„Þar fékk ég frið til að þroskast og finna sjálfa mig“

Auður sem er 26 ára tekur í sama streng en hún segist 16 ára hafa komið inn á Lauga­land vegna and­lega veikinda.

„Það vissi enginn ná­­kvæm­­lega hvert hægt væri að setja mig en sem betur fer var geð­læknirinn minn og for­eldrar mínir sam­­mála um að berjast fyrir því að koma mér á Lauga­land,“ skrifar Auður sem þakkar jafn­framt starfs­fólki Lauga­lands fyrir við­horf sitt.

„Þar fékk ég frið til að þroskast og finna sjálfa mig og hvernig ég vildi vera. Ég tel, að það að Lauga­land sé ein­­göngu fyrir stúlkur hafði stóran hluta í því hve vel þetta úr­­ræði virkaði fyrir mig. Starfs­­fólkið var hvetjandi og leyfði mér að prófa mig á­­fram þetta ár sem ég var þarna t.d. með að fara í mennta­­skóla og fá bíl­­próf.“

Ó­nafn­greindur starfs­maður sem starfaði í fimm ár á Lauga­landi segir að þó skjól­stæðingarnir hafi margar verið ó­sáttar að þurfa inn­ritast voru þær nær undan­tekninga­laust sorg­mæddar þegar þær voru út­skrifaðar. „Á­stæðan var sú að starfið var unnið af hug­sjón og haft að leiðar­ljósi að búa þeim heimili á meðan á dvölinni stóð. Þetta er starf­semi sem má ekki hætta. Hún bjargar manns­lífum,“ skrifar starfs­maðurinn.

Starfs­fólk Lauga­lands sendu á­skorun til Ás­­mundar Einars Daða­­sonar, fé­lags- og barna­­mála­ráð­herra og Heiðu Bjargar Pálma­dóttur, for­­stjóra Barna­verndar­­stofu á laugar­daginn um að finna leið til að halda starfsemi meðferðarheimilisins gangandi.

Að mati starfs­mannanna er með þessari ákvörðun verið að fækka úr­­ræðum fyrir nú þegar við­­kvæman hóp.

Hægt er að lesa frá­sagnir skjól­stæðinga, að­stand­enda og fag­fólks hér.