Sala á sérbýli hér á landi hefur hvergi verið líflegri en á Selfossi það sem af er ári, að því er fasteignamælaborð Deloitte sýnir, en það byggir á nýjum og reglulega uppfærðum tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Selfoss er hluti sveitarfélagsins Árborgar sem teygir anga sína suður á Stokkseyri og Eyrarbakka, en allir þeir bæir, ásamt Sandvíkurhreppi, sameinuðust í eitt sveitarfélag fyrir nálega aldarfjórðungi.

Mikil íbúðauppbygging hefur verið á þessum slóðum á undanförnum árum, ekki síst eftir að mikillar verðþenslu gætti á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu, og á það raunar líka við um önnur sveitarfélög í kringum þéttustu byggðina í borgarlandinu.

En Selfoss ber þar nú af. Það sýna sölutölur ársins, svo sem þjóðskráin vitnar um. Alls hafa 207 einbýli verið seld í bænum það sem af er ári, en til samanburðar má nefna Reykjanesbæ, sem er meira en tvöfalt fjölmennara sveitarfélag en Selfoss, en þar hefur selst 161 einbýli það sem af er ári.

Ef salan í september er skoðuð sérstaklega, en nýjustu tölur þjóðskrár eru frá þeim mánuði, sést að meira en helmingi fleiri eignir í sérbýli seldust á Selfossi en í Reykjanesbæ, 25 eignir á móts við 11.