„Ég skrapp á skíði til Austur­ríkis og svo út­víkkuðu þeir hættu­svæðis­skil­greininguna í há­deginu í gær. Þannig að skíða­bakterían kostar marga ýmis­legt þessa dagana,“ segir Þóranna K. Jóns­dóttir, markaðs- og kynningar­stjóri Sam­taka verslunar og þjónustu (SVÞ), í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ráð­stefna SVÞ, Kveikjum á okkur, um staf­ræna tækni og nýtt hugar­far, sem halda átti á Hilton Nor­di­ca næst­komandi fimmtu­dag, verður haldin á staf­rænan hátt að þessu sinni.

Ráð­stefna um staf­ræna tækni á staf­rænu formi

Síðustu ár hefur SVÞ haldið opna ráð­stefnu í til­efni af aðal­fundi sam­takanna og hefur hún jafnan verið vel sótt. Um 450 manns hafa sótt ráð­stefnuna ár hvert og í ár stefndi allt í að­sóknar­met, að sögn Þór­önnu.

Kóróna­veiran hefur haft mikil á­hrif hér á landi eins og annars staðar og hefur fjöl­mörgum við­burðum verið af­lýst eða þeim frestað. Sam­tök verslunar og þjónustu hafa einnig tekið á­kvörðun um að sýna á­byrgð í verki en þó ekki með því að af­lýsa ráð­stefnunni heldur breyta fyrir­komu­lagi hennar. Þykir það vel við hæfi að ráð­stefna um staf­ræna tækni og nýtt hugar­far sé haldin á staf­rænan hátt – í gegnum netið.

Þóranna er sjálf í sótt­kví á heimili sínu vegna veirunnar og er hún því í hópi um 500 Ís­lendinga sem eru – eða hafa verið – í sótt­kví síðan veiran kom til landsins.

Verður á­huga­vert að sjá við­brögðin

„Ráð­stefnan hefur verið send út á netinu áður en þó með öðrum hætti,“ segir Þóranna og bætir við að um­gjörðin nú verði með öðrum hætti. „Ís­lendingar eru ekkert vanir að hlutirnir séu gerðir svona en þetta er gert mikið er­lendis. Það verður á­huga­vert að sjá við­brögðin,“ segir hún. Á­kveðið hafi verið að gera þetta með þessum hætti í ljósi ó­vissunnar vegna CO­VID-19.

„Maður veit ekkert hve­nær þetta leysist, verður það í maí eða verður það í septem­ber? Þannig að við á­kváðum að halda okkar striki,“ segir Þóranna.

Jan­kel verður aðal­ræðu­maður

Aðal­ræðu­maður ráð­stefnunnar að þessu sinni er um­breytinga- og fram­tíðar­fræðingurinn Nick Jan­kel. Nick þessi hefur meðal annars verið ráð­gjafi hjá Hvíta húsinu og í Downing­stræti 10, höfuð­stöðvum bresku ríkis­stjórnarinnar. Þá hefur hann unnið með fjölda stór­fyrir­tækja að menningar- og breytinga­stjórnun og markaðs­málum. Nick hefur kennt við Yale, Ox­ford og London Business School, haldið fyrir­lestra víðs vegar og um hann hefur verið fjallað hjá miðlum á borð við The Times, The Financial Times, The Sunday Times og The Guar­dian.

Þá fá ráð­stefnu­gestir inn­sýn í reynslu Kringlunnar, Já og Póstsins af þeim á­skorunum sem felast í starfrænni um­breytingu og hvernig þau skapa fyrir­tæki til fram­tíðar.

Jón Ólafur Hall­dórs­son, for­maður SVÞ og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ráð­herra ferða­mála, iðnaðar og ný­sköpunar munu opna ráð­stefnuna. Andri Heiðar Kristins­son, nýr Staf­rænn leið­togi ríkis­stjórnarinnar mun stýra spurningum til Nick og annarra ræðu­manna.

Ráð­stefnan fer fram á fimmtu­dag og hefst hún klukkan 14. Fer hún fram í tölvum, spjald­tölvum eða snjallsímum þátt­tak­enda sem fyrr segir og fer skráning fram á vef Sam­taka verslunar og þjónustu.