„Ég skrapp á skíði til Austurríkis og svo útvíkkuðu þeir hættusvæðisskilgreininguna í hádeginu í gær. Þannig að skíðabakterían kostar marga ýmislegt þessa dagana,“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), í samtali við Fréttablaðið.
Ráðstefna SVÞ, Kveikjum á okkur, um stafræna tækni og nýtt hugarfar, sem halda átti á Hilton Nordica næstkomandi fimmtudag, verður haldin á stafrænan hátt að þessu sinni.
Ráðstefna um stafræna tækni á stafrænu formi
Síðustu ár hefur SVÞ haldið opna ráðstefnu í tilefni af aðalfundi samtakanna og hefur hún jafnan verið vel sótt. Um 450 manns hafa sótt ráðstefnuna ár hvert og í ár stefndi allt í aðsóknarmet, að sögn Þórönnu.
Kórónaveiran hefur haft mikil áhrif hér á landi eins og annars staðar og hefur fjölmörgum viðburðum verið aflýst eða þeim frestað. Samtök verslunar og þjónustu hafa einnig tekið ákvörðun um að sýna ábyrgð í verki en þó ekki með því að aflýsa ráðstefnunni heldur breyta fyrirkomulagi hennar. Þykir það vel við hæfi að ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar sé haldin á stafrænan hátt – í gegnum netið.
Þóranna er sjálf í sóttkví á heimili sínu vegna veirunnar og er hún því í hópi um 500 Íslendinga sem eru – eða hafa verið – í sóttkví síðan veiran kom til landsins.
Verður áhugavert að sjá viðbrögðin
„Ráðstefnan hefur verið send út á netinu áður en þó með öðrum hætti,“ segir Þóranna og bætir við að umgjörðin nú verði með öðrum hætti. „Íslendingar eru ekkert vanir að hlutirnir séu gerðir svona en þetta er gert mikið erlendis. Það verður áhugavert að sjá viðbrögðin,“ segir hún. Ákveðið hafi verið að gera þetta með þessum hætti í ljósi óvissunnar vegna COVID-19.
„Maður veit ekkert hvenær þetta leysist, verður það í maí eða verður það í september? Þannig að við ákváðum að halda okkar striki,“ segir Þóranna.
Jankel verður aðalræðumaður
Aðalræðumaður ráðstefnunnar að þessu sinni er umbreytinga- og framtíðarfræðingurinn Nick Jankel. Nick þessi hefur meðal annars verið ráðgjafi hjá Hvíta húsinu og í Downingstræti 10, höfuðstöðvum bresku ríkisstjórnarinnar. Þá hefur hann unnið með fjölda stórfyrirtækja að menningar- og breytingastjórnun og markaðsmálum. Nick hefur kennt við Yale, Oxford og London Business School, haldið fyrirlestra víðs vegar og um hann hefur verið fjallað hjá miðlum á borð við The Times, The Financial Times, The Sunday Times og The Guardian.
Þá fá ráðstefnugestir innsýn í reynslu Kringlunnar, Já og Póstsins af þeim áskorunum sem felast í starfrænni umbreytingu og hvernig þau skapa fyrirtæki til framtíðar.
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar munu opna ráðstefnuna. Andri Heiðar Kristinsson, nýr Stafrænn leiðtogi ríkisstjórnarinnar mun stýra spurningum til Nick og annarra ræðumanna.
Ráðstefnan fer fram á fimmtudag og hefst hún klukkan 14. Fer hún fram í tölvum, spjaldtölvum eða snjallsímum þátttakenda sem fyrr segir og fer skráning fram á vef Samtaka verslunar og þjónustu.