María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, hefur sagt upp störfum vegna fjársveltis stofnunarinnar.

Stundin greinir frá.

Í bréfi sem María sendi til samstarfsmanna sinni kemur fram að hún vilji ekki taka ábyrgð á vanfjármagnaðri stofnun.

Fjárveitingar til stofnunarinnar hafi lækkað frá árinu 2018 ef reiknað sé út frá föstu verðlagi.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar var uppsögn Maríu til umræðu á stjórnarfundi stofnunarinnar á fimmtudag. Þar upplýsti hún stjórnina um uppsagnarbréf sem hún sendi Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra á miðvikudag.

Starfsmönnum barst svo tilkynning frá Maríu í morgun að því er fram kemur á vef Stundarinnar. Þar staðfestir hún uppsögnina og segist þakklát fyrir þau fjögur ár sem hún hafi starfað hjá stofnuninni.

María ítrekaði vanfjármögnun stofnunarinnar í bréfi sem hún sendi fyrir hönd Sjúkratrygginga til fjárlaganefnd Alþingis í haust. Með nýju frumvarpi hafi verið boðuð enn meiri hagræðingarkrafa gagnvart stofnunni sem María og samstarfsfólk hennar telur að muni leiða til stórskerðingar á þjónustu við almenning.

Ekki náðist í Maríu við vinnslu fréttarinnar.