María Rut Kristins­dóttir hefur tekið við starfi kynningar­stýru UN Wo­men á Ís­landi.

Frá þessu er greint í til­kynningu frá UN Wo­men en María Rut segir sjálf á Face­book að eftir fjögurra ára starf sem að­stoðar­maður Þor­gerðar Katrínar Gunnars­dóttur, al­þingis­konu, hafi nýtt tæki­færi bankað upp á sem hún gat ekki hafnað.

„Síðustu fjögur ár hafa verið of­boðs­lega lær­dóms­rík en fyrst og fremst fá­rán­lega skemmti­leg. Hvílíkur lukku­pottur að fá að starfa með mann­eskju eins og Þor­gerði, með þing­flokki Við­reisnar, besta starfs­fólkinu og öllu því góða fólki sem tekur þátt í flokks­starfinu. Al­gjör for­réttindi. Ég mun pakka þessum árum saman í gott og dýr­mætt vega­nesti fyrir næsta kafla,“ segir María Rut.

Áður en hún tók við starfi að­stoðar­manns Þor­gerðar starfaði hún sem sér­fræðingur á sviði mann­réttinda­mála á skrif­stofu mann­réttinda- og sveitar­fé­laga í innan­ríkis­ráðu­neytinu og leiddi þar sam­ráðs­hóp ráð­herra um með­ferð kyn­ferðis­brota innan réttar­vörslu­kerfisins.

Hún kom einnig að ýmsum öðrum verk­efnum innan innan­ríkis- og dóms­mála­ráðu­neytisins, þar með talið full­gildingar­ferlis Istanbúls­samningsins. María hefur jafn­framt verið virk í ýmsum fé­lags­störfum m.a. sem for­maður Stúdenta­ráðs Há­skóla Ís­lands, tals­kona Druslu­göngunnar og vara­for­maður Sam­takanna '78.

María Rut út­skrifaðist árið 2013 með B.S. gráðu í sál­fræði frá Há­skóla Ís­lands og árið 2018 með diplóma í opin­berri stjórn­sýslu frá sama skóla.

„Við hjá UN Wo­men fögnum því að fá Maríu Rut til liðs við okkar öfluga teymi. Hún býr yfir reynslu og þekkingu sem mun nýtast gríðar­lega vel innan okkar stækkandi stofnunar. Á­hersla Maríu Rutar á mann­réttindi í sínum störfum mun svo sannar­lega fá að blómstra innan okkar raða og við vitum að hún á eftir að koma inn af krafti í verk­efnin okkar,“ segir Stella Samúels­dóttir fram­kvæmda­stýra UN Wo­men á Ís­landi.

Kynningar­stýra sam­takanna leiðir starf kynningar­mála og kynningar­sviðs sam­takanna, hefur um­sjón með á­taks­her­ferðum og sam­skiptum við fjöl­miðla.