María Guð­munds­dóttir, sjúkra­þjálfari og fyrr­verandi landsliðskona og Íslandsmeistari í skíðaíþrótt, er nú komin til Noregs til að þiggja með­ferð en þar er að finna lækna sem eru sér­hæfðir í mjög sjald­gæfu krabba­meini sem hún ný­lega var greind með.

María byrjaði í septem­ber á síðasta ári að finna fyrir ýmsum verkjum sem virtust, við fyrstu skoðun, ekki eiga sér neina út­skýringu. Í desember var hún greind, í Banda­ríkjunum þar sem hún býr, með of­vaxið milta en engar út­skýringar fylgdu greiningunni.

„Það var meira en tvö­falt stærra en venju­legt milta,“ segir hún á vef Gofundme þar sem hún hefur leitað til al­mennings um að­stoð.

Þar kemur fram að að læknar hafi þá ráð­lagt henni, og eigin­manni hennar Ryan, að halda á­fram plani sínu um að heim­sækja fjöl­skyldu í Noregi yfir jólin.

„Í milli­lendingu á Ís­landi, á leið okkar heim eftir jól, var ég of veik til að halda ferða­laginu á­fram og var lögð inn á spítala á Ís­landi,“ segir María.

Myndirnar voru teknar eftir að miltað var fjarlægt úr Maríu. Það var orðið 2,4 kílógrömm.
Mynd/Samsett

Fékk loks greiningu í janúar

Eftir að hafa dvalið þar í um mánuð, hitt ótal lækna og farið í öll mögu­leg próf og sýna­töku sem læknum datt í hug að senda hana í fékkst samt engin niður­staða um hvað ná­kvæm­lega hrjáði Maríu. Þá var á­kveðið að fjar­lægja miltað og vonast til þess að þá væri hægt að greina hvað væri að.

„Þann 25. janúar kom loks svarið,“ segir María á Gofundme en þá var hún greind með Primary Splenic Angiosarcoma sem er svo sjald­gæft krabba­mein að það hefur aldrei verið greint í mann­eskju á Ís­landi áður og hefur að­eins fundist í 0,2 prósent af hverri milljón í heiminum.

María segir að auk þess að vera sjald­gæft sé krabba­meinið mjög á­gengt og geti dreift sér um blóð hennar án þess að vera greint.

„Eftir þó­nokkra fundi með læknunum höfum við komist að því að það er mjög lítið sem er vitað um þennan sjúk­dóm, og þar með talið hvort að hann sé byrjaður að dreifa sér,“ segir María, og að því sögðu, þá séu þó nokkrir hlutir sem þau viti.

Eins og að hún þurfi að fara aftur til Banda­ríkjanna þar sem er að finna sér­hæfðari lækna í þessari týpu af krabba­meini og að hún og Ryan muni þurfa að ferðast til að finna stað þar sem hún getur fengið við­eig­andi með­ferð.

„Við megum engan tíma missa og hver dagur skiptir máli,“ segir María og að á sama tíma og hún undir­býr sig undir mikla og erfiða krabba­meins­með­ferð þurfi hún að láta að frysta eggin sín svo að hún geti mögu­lega eignast börn seinna en það er lang­þráður draumur hennar og Ryan.

María er nú komin til Noregs í áframhald. Sérhæfðir læknar vinna í því að búa til meðferðaráætlun fyrir hana.
Mynd/Aðsend

Þarf að hætta í doktorsnámi

Krabba­meins­með­ferðin sem María þarf að undir­gangast er lág­mark sex mánuðir og til þess að þetta gangi allt upp hefur eigin­maður hennar, Ryan, hætt í vinnunni sinni til að sinna henni og til að að­stoða hana við að finna við­eig­andi með­ferðir og rann­saka hvað er í boði.

María sjálf hefur verið í doktors­námi í sjúkra­þjálfun en þarf að draga sig úr því námi til að fara í með­ferð.

„Erfiðustu fréttirnar sem ég fékk var þegar læknirinn sagði mér að án far­sællar með­ferðar ætti ég að­eins þrjá til sex mánuði ó­lifaða,“ segir María og að fyrir áður heil­brigða 28 ára gamla konu sé erfitt að ná utan um slíkar upp­lýsingar.

„En eins erfitt og þetta allt er þá er ég til­búin að gera hvað sem er til að sigrast á þessu,“ segir María.

Hún sér fram á tölu­verðan lækna­kostnað auk kostnaðar vegna flutninga, hús­næðis og annars fyrir bæði hana og eigin­mann hennar á meðan hún er í með­ferð. Vegna þess að hún þarf að segja sig frá doktors­náminu er lík­legt að hún missi rétt sinn til sjúkra­trygginga og þar sem að eigin­maður hennar hefur sagt upp vinnunni eru þau al­ger­lega tekju­laus.

Þau hafa því leitað til al­mennings og hafa sett sér mark­mið um að safna 100 þúsund Banda­ríkja­dölum sem sam­svara um rúmum 12,5 milljónum ís­lenskra króna.

Þau hafa nú þegar safnað um helmingi upp­hæðarinnar á Gofundme en eiga enn hinn helminginn eftir.

Hægt er að styrkja Maríu í átt að bata­vegi hérna en auk þess biðlar María til fólks sem mögu­lega þekkir lækna sem sér­hæfðir eru eða hafa ein­hvers konar þekkingu á þeirri týpu af krabba­meini sem hún hefur greinst með.

María er opin­ská um veikindi sín og opnaði blogg­síðuna Medi­cal Maria þar sem hún fjallar um veg­ferð sína í átt að bata. Hægt er að fylgjast með henni hér.

Hér er hægt að styrkja Maríu.