María Árnadóttir kærði of­beldis­brot í nánu sam­bandi til lög­reglu í desember 2017. Um var að ræða tvær líkams­á­rásir sem áttu sér stað í febrúar og júlí 2016 og svo hótun sem átti sér stað í maí 2017, eftir að gerandinn komst að því að María hygðist kæra of­beldið.

Brot sem eru með refsi­ramma upp að fjórum árum fyrnast eftir tvö ár en sam­kvæmt Maríu þá féllu öll þrjú of­beldis­brotin sem hún varð fyrir undir þann flokk. Líkams­á­rásar­brotin fyrndust hins vegar í rann­sókn lögreglu vegna þess að lög­reglunni láðist að kynna sak­borningi sakar­efnin sem olli því að mál Maríu var fellt niður og fór aldrei fyrir dóm.

„Ég kæri innan eðli­legs frests í desember 2017. Fyrra líkams­á­rásar­brotið, það fyrnist í rauninni ekki fyrr en 28. febrúar, þannig þeir höfðu til loka febrúar til að kynna sak­borningi sakar­efni. Það er nefni­lega svo oft að fólk haldi bara að fyrning rofni við kæru en það eitt og sér er ekki nóg. Lög­reglan á að kynna sak­borningi sakar­efni strax en þau gerðu það ekki,“ segir María.

María segist allan tímann hafa vitað að það væri eitt­hvað bogið við rann­sókn málsins en henni skorti kæru­heimild til að geta gert eitt­hvað í því. Sam­kvæmt lögum fær sak­borningur kæru­heimild á rann­sóknar­stigi og hefur að­gang að gögnum, á meðan brota­þoli hefur ekki kæru­heimild og fær ekki að­gang að gögnum er varða mál hans. María segir þetta vera mikinn galla á réttar­kerfinu sem sé brýnt að gera breytingu á. María er sjálf lög­fræði­menntuð en hún neyddist til að gera hlé á meistara­námi sínu vegna alvarlegrar áfallastreituröskunar og tauga­á­falls sem hún upp­lifði í kjöl­far málsins.

„Ég er að knýja fram laga­breytingar. Ég get ekki ó­rétt­læti, ég er gríðar­lega rétt­sýn manneskja,“ segir María Árnadóttir.
Fréttablaðið/María Árnadóttir

Lenti í tauga­á­falli eftir niður­fellingu málsins

Í lok apríl 2019, tæp­lega einu og hálfu ári eftir að María lagði fram kæruna, barst henni bréf frá full­trúa sak­sóknara hjá lög­reglu­stjóranum á höfuð­borgar­svæðinu þess efnis að málið þætti ekki nægjan­legt eða lík­legt til sak­fellingar og var það því fellt niður í heild sinni. María segist hafa gengið á reiði fyrstu vikurnar og farið yfir laga­lega sönnunar­stöðu málsins, sem hún vissi að væri sterk.

Meðal þeirra sönnunar­gagna sem María lagði fram við kæru var játning og af­sökunar­beiðni frá geranda, tveir sam­skipta­seðlar frá lækni um á­verka og ljós­mynd af á­verkum sem endur­spegluðu lýsinguna í sam­skipta­seðlunum. Auk þess voru nokkur bein og óbein vitni í málinu. Játningin var í formi SMS skila­boðs sem gerandi hafði sent Maríu og dag­sett var daginn eftir síðari líkams­á­rásina. Sam­kvæmt Maríu er ljóst að sönnunar­gögnin voru nógu sann­færandi til að knýja fram sak­fellingu, hefði málið ekki verið fellt niður.

„Já, það vita það allir, bæði ég sem lög­fræðingur og réttar­gæslu­lög­menn sem hafa unnið við þetta í mörg ár, að þetta er bara sak­felling. Þetta hefði náð sak­fellingu ef það hefði verið hægt að á­kæra í þessu en lög­reglan klúðraði því fyrir mig,“ segir María.

Rúmri viku eftir niður­fellingu málsins gafst líkami Maríu upp og hún fékk al­var­legt tauga­á­fall eftir þriggja daga vöku, grát og van­líðan. Tauga­á­fallið olli því að María var frá vinnu í þrjá mánuði og var sett á svefn og kvíða­lyf en meðal þeirra líkam­legu ein­kenna sem hún upp­lifði voru minnis­leysi og skert jaðar­sjón sem gerði það að verkum að hún gat ekki keyrt bif­reið í nokkra mánuði. Í kjöl­far á­fallsins fór hún í sér­tæka EMDR með­ferð vegna á­falla­streitu­röskunar á vegum Bjarkar­hlíðar. Með­ferðin stendur enn yfir og segist María ekki geta hætt henni fyrr en mála­ferlunum er lokið. Þar að auki þurfti María að fara í ó­frjó­semis­að­gerð vegna á­lags á hjarta- og æða­kerfi til að minnka á­hættu á blóð­tappa­myndun.

Þetta er sak­næmt brot. Þetta fellur ekki undir gá­leysis­brot hjá lög­reglu, þetta fellur undir sak­næmt brot hjá lög­reglu.

María tók þessar myndir af áverkunum sem hún hlaut við líkamsárásina.
Mynd/María Árnadóttir

Van­virðandi að málið hafi ekki verið rann­sakað

María tók þá á­kvörðun að kæra niður­fellingu málsins til ríkis­sak­sóknara og óskaði eftir af­hendingu á máls­gögnum á­samt rök­stuðningi fyrir niður­fellingunni. Hún fékk hins vegar hvorugt sem fer gegn stjórn­sýslu­lögum, fyrir­mælum sak­sóknara og túlkun um­boðs­manns Al­þingis í á­liti um réttar­á­hrif niður­fellingar.

Ríkis­sak­sóknari var ó­sam­mála á­kæru­sviði um niður­fellingu málsins og taldi næg sönnunar­gögn til þess að á­kæra í öllum kæru­liðum en á þessum tíma­punkti var ekki hægt að á­kæra fyrir líkams­á­rásar­brotin því þau voru orðin fyrnd. Ríkis­sak­sóknari lagði því fyrir lög­reglu að gefa út á­kæru vegna hótunarinnar sem þá var eini kæru­liðurinn sem hafði ekki fyrnst. Ríkis­sak­sóknari á­réttaði jafn­framt gildandi reglur um af­hendingu gagna og fannst að­finnslu­vert að Maríu hafi ekki verið veittur rök­stuðningur sem lög­reglu er skylt að gera sam­kvæmt lögum. María hefur enn ekki fengið neinn rök­stuðning á niður­fellingunni. Þar að auki taldi ríkis­sak­sóknari á­stæðu til að gera grein fyrir rann­sókn lög­reglu í málinu en í ljós kom að málið hafði í raun ekki verið rann­sakað sem skyldi, á­verka­vott­orðin höfðu ekki verið sótt, né aðrar stað­festingar og vott­orð.

„Það var enn eitt á­fallið. Það var svaka­lega van­virðandi og niður­lægjandi að sjá það að málið hafði ekki verið rann­sakað. Sem er sér­stak­lega erfitt þegar um er að ræða svo per­sónu­legt brot eins og of­beldi í nánu sam­bandi er,“ segir María.

Hún segist í­trekað hafa reynt að hafa sam­band við lög­reglu til að spyrjast fyrir um stöðu málsins og hvernig rann­sókn þess miðaði á­fram. Verandi sjálf lög­fræði­menntuð þá gerði María sér full­kom­lega grein fyrir mögu­leika þess að málið gæti fyrnst ef sak­borningi yrðu ekki kynnt sakar­efni innan til­skilins tíma.

„Ég held ég hafi talið ein­hverja tuttugu pósta þar sem ég í­trekaði á­hyggjur mínar af fyrningu og óskaði eftir hve­nær fyrningar­rof hefði orðið í mínu máli til að fylgjast með og mér var ekki svarað.“

En þrátt fyrir alla við­leitni Maríu láðist lög­reglunni að kynna sak­borningi sakar­efni og málið fyrndist áður en hægt var að gefa út á­kæru, eins og áður hefur komið fram.

„Þetta er sak­næmt brot. Þetta fellur ekki undir gá­leysis­brot hjá lög­reglu, þetta fellur undir sak­næmt brot hjá lög­reglu,“ segir María.

María Árnadóttir og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Fréttablaðið/Ernir

Með sak­sóknara á vinstri hönd og sak­borning á hægri hönd

Lög­reglu­stjóri gaf út á­kæru í hótunar­brotinu en þegar málið var dóm­tekið kom í ljós að María hafði misst rétt sinn til réttar­gæslu­lög­manns vegna þess að málið hafði klofnað í tvennt. Heimild til réttar­gæslu­lög­manns hafði fylgt líkams­á­rásar­brotunum sem fyrndust en ekki hótunar­brotinu. Það olli því að María þurfti sjálf að standa straum af öllum lög­fræði­kostnaði málsins og sat hún uppi með mörg hundruð þúsund króna reikning sem hún þurfti að greiða úr eigin vasa.

Á sama tíma missti María heimild sína til að láta víkja geranda úr dóm­sal við skýrslu­töku og sat hún því í dóm­salnum með sak­sóknara á vinstri hönd, sem braut á rétti hennar til gagna og rök­stuðningi við niður­fellingu, og sak­borning á hægri hönd, sem braut á henni bæði líkam­lega og and­lega. María segir það hafa verið þrautinni þyngri að komast í gegnum mál­flutninginn við þessar að­stæður. Sak­borningur var að lokum sak­felldur fyrir hótunar­brotið í Héraðs­dómi en á­frýjaði málinu til Lands­réttar í ágúst 2020. Lands­réttur hefur enn ekki til­kynnt dag­setningu fyrir málflutning.

Ég er orðin nægi­lega sterk eftir alla þessa að­stoð sem ég hef fengið til þess að berjast fyrir þessu án þess að gera það með tárin lekandi niður.

Nýtt frum­varp gefur tæki­færi til breytinga á réttar­kerfinu

María segir það ekki auð­velt að stíga svona fram opin­ber­lega og segja sína sögu.

„Maður verður ein­hvern veginn að setja sig til hliðar og hugsa bara hvert er heildar­mark­miðið. Ég hef bara alltaf gengið fyrir rétt­lætis­hugsun og get ekki svona, sér­stak­lega ekki þegar ríkið er að brjóta á réttindum borgara og komast upp með það.“

Hún segir tæki­færi vera að myndast til breytinga á réttar­kerfinu með nýju frum­varpi um bætta stöðu brota­þol­enda kyn­ferðis­brota sem lagt verður fyrir Al­þingi seinna í mánuðinum. Frum­varpið er byggt á skýrslu sem Hildur Fjóla Antons­dóttir, doktor í réttar­fé­lags­fræði, vann árið 2019 fyrir stýri­hóp for­sætis­ráð­herra um leiðir til að styrkja réttar­stöðu brota­þol­enda. Í skýrslunni kom meðal annars fram að Ís­land kemur mjög illa út þegar staða brota­þol­enda er borin saman við hin Norður­löndin.

„Það sem að ég er að gera er að nota bara tæki­færið núna þegar það er að koma frum­varp. Ég er orðin nægi­lega sterk eftir alla þessa að­stoð sem ég hef fengið til þess að berjast fyrir þessu án þess að gera það með tárin lekandi niður, sem ég hefði alveg verið fyrir ári síðan. Ég er að reyna að koma í veg fyrir það að aðrir þurfi að lenda í þessu sama. Þú veist, ég á börn, ég á vin­konur og ég bara get ekki hugsað til þess að ein­hver sem verði fyrir ein­hverju svona þurfi að ganga í gegnum það sama og ég,“ segir María.

Hún segir með­ferðina sem mál hennar fékk í höndum lög­reglu og á­kæru­valds sýna skýrt hversu mikil­vægt það er að bæta réttar­stöðu brota­þol­enda í kyn­ferðis­brota­málum.

„Ég er að knýja fram laga­breytingar. Ég get ekki ó­rétt­læti, ég er gríðar­lega rétt­sýn manneskja og stefni á sak­sóknara í of­beldis­brota­málum og það er bara eitt­hvað rétt­lætis­bein sem ég fæddist með. Ég hef alltaf verið svona, ég á erfitt með ó­rétt­læti og tæki­færið er núna,“ segir María.

María fékk nýlega þær fregnir að mál hennar yrði tekið til fyrstu af­greiðslu hjá Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu, hún segir það stóran á­fanga og gleði­legt fyrsta skref.
Fréttablaðið/EPA

Komin í gegnum fyrstu síu hjá Mannréttindadómstólnum

Nokkrum dögum eftir að María steig fram á fundinum í Þjóð­leik­húsinu fékk hún þær fregnir að mál hennar yrði tekið til fyrstu af­greiðslu hjá þriðju undir­deild Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu. Þó að tvær af­greiðslur séu eftir og enn sé sá mögu­leiki fyrir hendi að málinu verði lokað eða það ekki tekið lengra, þá lítur María svo á að um stóran á­fanga og gleði­legt fyrsta skref sé að ræða.

„Fréttirnar komu okkur að óvörum því þetta gæti orðið fordæmisgefandi mál nái það alla leið. Ég veit ekki til þess að íslenskt mál í þessum brotaflokki hafi áður komist að hjá Mannréttindadómstólnum,“ segir María.

Íslenska ríkið hefur núna frest til 1. júní til að reyna að ná sáttum í málinu en ef þau gera það ekki fá þau þriggja mánaða frest til að skila inn greinargerð til Mannréttindadómstólsins. Í kjölfar þess getur málið fengið efnislega meðferð eða lent í biðstöðu. Aðspurð um hvort hún sé bjartsýn á framhaldið segir María:

„Ég náttúrlega er bjartsýn því ég veit að ég er að gera þetta til að reyna að breyta kerfinu fyrir þá sem á eftir koma. Mér létti svolítið að koma þessu frá mér, bæði hvað þetta var brútal og til þess að hafa áhrif á að það þurfi ekki einhverjir aðrir að ganga í gegnum þetta. Að lögunum verði raun­veru­lega breytt til að þessi réttar­staða verði bætt.“