Dómur féll í Lands­rétti síðasta föstu­dag í máli Maríu Sjafnar Árna­dóttur gegn Heiðari Má Sigur­laugar­syni, fyrr­verandi sam­býlis­manni hennar.

Heiðar Már var dæmdur í 45 daga skil­orðs­bundið fangelsi fyrir hótanir í hennar garð og til greiðslu 300 þúsund króna miska­bóta. Hann var auk þess dæmdur til að greiða sömu upp­hæð í máls­kostnað og allan á­frýjunar­kostnað málsins, þar með talin máls­varnar­laun skipaðs verjanda síns, rúmar 850 þúsund krónur.

María segir það vera rosa­lega góða til­finningu að hafa unnið málið. Þar með sé hluta rétt­lætisins náð en tvö fyrri brot sem hún varð fyrir af hendi sama geranda og kærði til lög­reglu fyrndust meðan á rann­sókn stóð.

„Þetta er náttúr­lega bara fyrst og fremst léttir og viður­kenning á að það hafi verið brotið gegn mér, þannig að það er gríðar­lega mikil ró að vera búin að klára þetta eftir fjögurra ára bar­áttu. Maður hefur þessa til­finningu að ég náði rétt­lætinu að hluta til. Ég náði því náttúr­lega ekki að öllu leyti, en það er rosa­legur léttir eftir fjögurra ára streð.“

Heiðar Már hótaði Maríu að senda nektar­myndir af henni til vinnu­veit­enda hennar. Til refsi­þyngingar var til þess litið að brot hans hefðu beinst að fyrr­verandi sam­býlis­konu hans og við mat á upp­hæð miska­bóta var horft til þess að þau hefðu falið í sér brot gegn friði og per­sónu hennar, sem gæti verið til þess fallið að vekja hjá henni ótta um vel­ferð sína.

María er ein níu kvenna sem kærðu ís­lenska ríkið til Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu á vegum Stíga­móta fyrir að hafa brotið á rétti þeirra til rétt­látrar máls­með­ferðar.

María kærði þrjú of­beldis­brot sem hún varð fyrir af hendi áður­nefnds sam­býlis­manns til lög­reglu í desember árið 2017. Um var að ræða tvær líkams­á­rásir sem áttu sér stað í febrúar og júlí 2016 og hótun sem barst í maí árið 2017. Hótunin var gerð eftir að gerandi komst að því að María hygðist kæra of­beldið.

Brot með allt að því fjögurra ára refsi­ramma fyrnast eftir tvö ár. Sam­kvæmt Maríu féllu öll þrjú of­beldis­brotin sem hún varð fyrir undir þann flokk. Líkams­á­rásar­brotin fyrndust hins vegar í rann­sókn lög­reglu vegna þess að lög­reglunni láðist að kynna sak­borningi sakar­efnin sem olli því að málið var fellt niður og fór aldrei fyrir dóm.

María bíður nú niður­stöðu Mann­réttinda­dóm­stólsins en ís­lenska ríkið fékk frest frá dóm­stólnum þar til í októ­ber til að skila inn at­huga­semdum.