Samt er nýi Fiat 500e á allan hátt fullkominn nútímabíll, nútímalegur í útliti og aksturseiginleikarnir eiga ekkert skylt við 1957. Eitthvað hefur líka tognað úr honum. 1957 var Fiat 500 innan við þrír metrar að lengd 500e er 3,62 metrar að lengd.

Ekki má gleyma því heldur að nýi bíllinn er knúinn fjörmikilli rafmagnsvél en sá gamli var með hálfs lítra, tveggja strokka bensínvél. Einnig er nokkur munur á þyngdinni því að Fiat 500e er 1.365 kíló að þyngd á móti tæplega hálfu tonni hjá þeim gamla.

Skemmtilegur í akstri

Þegar sest er undir stýri á Fiat 500e sest maður inn í skemmtilega blöndu gamals og nýs tíma. Um leið og mælaborðið er óður til fortíðar státar það af stórum upplýsingaskjá og allt aðgengi að stjórntækjum er eins og best verður á kosið.

Satt best að segja minnir aksturinn ekki mikið á akstur hins gamla og sígilda Fiat 500. Fjöðrunin er þétt og stíf þannig að maður fær á tilfinninguna að um talsvert stærri bíl sé að ræða. Hröðunin er skemmtileg þótt vissulega sé þetta enginn kappakstursbíll.

Stýrishjólið er lítið og gefur gott grip og í beygjum liggur Fiat 500e vel, svo minnir á bíla sem kosta gott betur en hann.

Tilvalinn fyrir ungar fjölskyldur

Hjónin Karitas Sveinsdóttir og Hafsteinn Júlíusson í HAF menntuðu sig á Ítalíu og drukku í sig ítölsk áhrif. Þau eiga vart nógu mörg orð til að lýsa ánægju sinni og aðdáun á Fiat 500e.

„Eftir mikla leit og umhugsun um hvaða bíl við ættum að fá okkur sem annan bíl varð Fiat 500e fyrir valinu,“ segir Hafsteinn. „Hann hentar okkur svo vel því að bæði búum við í 101 Reykjavík og erum líka með vinnustofuna okkar þar. Drægið er ótrúlega gott, en hann nær allt að 433 kílómetra drægi á einni hleðslu. Þetta er ótrúlega hentugur bíll hvað stærð varðar því hann kemst í öll stæði, mjög lipur í akstri og svo einstaklega falleg hönnun. Við lærðum á Ítalíu og höfum dáðst að þessum bílum síðan þá og vitum fátt fallegra en ítalska hönnun og gæði. Við erum einmitt stödd á Ítalíu í fríi og Fiat 500e er mjög vinsæll hér, það er sérstaklega gaman að sjá þá elstu enn þá í umferð.“

Karitas gefur bílnum ekki síðri einkunn og segir hann einstaklega hentugan fyrir ungar fjölskyldur.

„Við mæðgurnar þrjár elskum að snattast saman á honum, við komumst allar vel fyrir með barnabílstól og kerruna í skottinu. Hann leynir á sér í stærð því það fer svo vel um okkur allar. Svo er mjög hentugt að koma barnabílstólnum fyrir aftur í, þar sem það er hægt að opna tvær hurðir til að athafna sig betur.“

Karitas er að vísa til þess að hægt er að opna bæði fram- og afturdyr og opnast þá mikið og stórt op á hlið bílsins og þægilegt er að athafna sig og setjast inn í hann eða koma fyrir til dæmis bílstól.

Hlaðinn þægindum og tækni

Fiat 500e kemur með fimm ára ábyrgð og átta ára ábyrgð er á rafhlöðunni. Aðeins tekur fimm mínútur að hlaða bílinn þannig að hægt sé að keyra hann 50 kílómetra. Upplagt að fá sér kaffibolla á meðan. Alls konar nýjasta tækni gerir kleift að hlaða rafhlöðuna að hluta í akstri, auk þess sem fullkomið akstursaðstoðarkerfi með mismunandi stillingum hjálpar ökumanni að ná hámarksdrægi við mismunandi aðstæður.

Þá sér tölva um að gæta að fjarlægð við næsta bíl, halda bílnum á miðri akrein, auk þess sem hún les á umferðarskilti og minnir ökumann á hámarkshraða, alveg eins og aðstoðarökumaður. Fjarlægðarskynjarar eru allan hringinn og blindhornsvörn sem er mjög gagnlegt þegar bakkað er úr stæði út á umferðargötu.

Í stuttu máli er Fiat 500e gullfallegur rafmagnsbíll með flott LED-ljós að framan og aftan, glerþak og sportlegt útlit og stórglæsilega innréttingu, sem gefur þá tilfinningu að fólk sé í premium class lúxusbíl, alvöru ítölsk hönnun með flottri ljósri eco-leðurinnréttingu. Stór 10 tommu útvarpsskjár með fullkomnu stýrikerfi en einnig þægilegir takkar í mælaborði, á stýri og milli sæta þannig að það er þægilegt að stýra útvarpi og öðru án þess að þurfa að fikra sig í gegnum allt á útvarpsskjánum.

Svo er auðvitað regnskynjari, lykillaust aðgengi og ræsing og bíllinn er í raun hlaðinn munaði.