Þetta erindi kalla ég Söguþátt um sálina,“ segir Jörgen L. Pind, prófessor emeritus í sálfræði. Hann er einn þeirra sem flytja erindi á opnum fundi Íslenskrar erfðagreiningar. Á fundinum velta fjölbreyttir fyrirlesarar fyrir sér uppruna og hlutverki hugsunar og reyna að svara spurningunni: Hvað er hugsun?
Jörgen mun fjalla um hugsun á þrískiptan hátt. „Ég byrja á því að tala aðeins um hina svokölluðu sálarlausu sálfræði, hún er eiginlega grundvöllur að nútíma sálfræði, þegar menn lögðu það til hliðar að hugsa um sálina og einbeittu sér meira að mælanlegum eiginleikum sálarlífsins,“ segir hann.
Utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif
Jörgen fjallar einnig um vitund og rannsóknir á hugsunum og rökvillur í hugsun. „Það er svo margt sem getur haft áhrif á hugsun. Fólk heldur kannski að það sé að komast að skynsamri niðurstöðu en svo eru ýmsir utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif,“ útskýrir hann.
Þegar Jörgen er beðinn um að taka dæmi um þætti sem geta haft áhrif á hugsun segir hann frá rannsókn sem framkvæmd var af fræðimönnunum Tversky og Kahneman. „Þeir gerðu fræga tilraun á þessu,“ segir hann.
„Þeir spurðu háskólanema hversu hátt hlutfall Afríkuríkja þeir teldu að væru í Sameinuðu þjóðunum en áður en fólk átti að svara rúlluðu þeir lukkuhjóli. Hjólið lenti annað hvort á tölunni 65 eða lægri tölu sem var minnir mig tuttugu og eitthvað,“ segir Jörgen.

„Í ljós kom að ef hærri talan kom upp þá giskaði fólk á miklu hærra hlutfall Afríkuríkja í Sameinuðu þjóðunum. Þetta kölluðu þeir akkerissig af því að fólk festi sig á einhverjar tölur en talan kemur þessu ekkert við og hefur ekkert með fjölda ríkjanna að gera en samt hefur þetta áhrif,“ útskýrir hann. „Aðalpunkturinn hjá þeim var að fólk geri sér ekki grein fyrir að þetta hafi áhrif en það gerir það.“
Svara spurningunni í dag
Spurður að því hvort hægt sé að svara spurningunni: Hvað er hugsun? segir hann það hægt. „Það eru til svo mismunandi afbrigði af hugsunum. Til dæmis rökhugsun, það er þegar við komumst að niðurstöðu út frá einhverjum forsendum og þrautalausn sem er það þegar við fáum einhverja gátu að glíma við,“ segir Jörgen.
„En það kemur líklega skýrt svar við þessu þegar við svörum spurningunni í sameiningu á fundinum,“ segir Jörgen. Fundurinn fer fram í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar klukkan 13.00 í dag og er öllum opinn.