Einar Svein­björns­son, veður­fræðingur hjá Bliku, segir of snemmt til að full­yrða um hvernig veðrið í desem­ber­mánuði verður, en það sé margt sem bendir til þess að desember fari af stað með hlýindum.

Hann segir ekki það sama eiga við megin­land Evrópu, og þá sér­stak­lega Evrópu norðan Alpa. Spár sýni fram á há­þrýsti­svæði sem mun myndast í Norður-At­lants­hafi hafi þau á­hrif að kalt loft mun streyma úr austri og yfir Evrópu.

„Þetta verða kannski helst Eystra­salts­löndin, Pól­land, Þýska­land, Dan­mörk og síðan Skandinavía. Þau fá þennan kulda­skammt sam­kvæmt spám,“ segir hann.

„Þetta kalla Evrópu­menn „The beast from the east,“ upp á ensku,“ segir Einar og hlær.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þá segir Einar of snemmt að segja hvort veðrið á Ís­landi muni fylgja því sem verður í Evrópu. Þegar slíkt gerist og spáð er í Evrópu, þá verði annað hvort hlýtt eða mjög kalt hér­lendis.

„Það er annað hvort í ökla eða eyra,“ segir Einar og bætir við: „Við munum fá for­smekkinn af slíkum hlýindum á mið­viku­dag. Þá verður hlýtt.“

„Það getur líka hist þannig á, að staðan á þessum hæðum sé þannig að kalda loftið það dembist líka yfir okkur. Þannig að þessu tíðar­fari, þegar opnast fyrir kalt loft úr austri yfir Evrópu, því fylgir yfir­leitt annað­hvort mikil hlýindi, miklar sunnan­áttir eða þá að það er kalt úr norðri,“ segir Einar.