„Varð ég fyrir vonbrigðum með þessa framkvæmd? Já. Það er margt í þessari skýrslu sem veldur mér verulegum vonbrigðum.“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, um skýrslu Ríkisendurskoðunar á sölu á hluta í Íslandsbanka.
„Í þeirri skýrslu sem nú hefur verið birt kemur fram gagnrýni, bent er á annmarka á sölu á þessum hlut í Íslandsbanka.“ sagði Katrín í ræðu á Alþingi rétt í þessu „Við eigum að taka þessari gagnrýni alvarlega og við eigum að bregðast við henni, og þar hygg ég að við séum mörg hver í öllu falli sammála hér á þinginu.“
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafði spurt í ræðunni á undan Katrínu hvort fjármálaráðherra hefði ekki átt að reyna að tryggja hæsta mögulega verð fyrir hlutinn. „Við megum ekki gleyma því að í þeirri greinargerð, sem skilað var til þingnefnda, var sérstaklega kveðið á um að hæsta verð væri ekki eina markmiðið með þessari sölu. Einnig bæri að tryggja fjölbreytt eignarhald,“ svaraði Katrín og bætti við að það væri ekki eftiráskýring, heldur hefði þetta komið snemma fram.
Síðan taldi hún upp aðra þætti skýrslunnar og sagði vöntun á gagnsæi vera alvarlega. „Verðið hefði getað verið hærra, eins og bent er á, og upplýsingarnar sem lagðar voru fram voru ekki fullnægjandi. Mér finnst það reyndar alvarlegt mál.“
Líkt og áður segir lýsti Katrín síðan yfir vonbrigðum sínum með framkvæmdina. „Og mér finnst hún sýna það að það er rík ástæða til að endurskoða allt þetta fyrirkomulag frá grunni, eins og ég sagði hér í vor.“