Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, segir margt benda til þess að við séum að ná stjórn á annarri bylgju far­aldursins. Næstu dagar muni skera endan­lega úr um það.

„Það eru lík­lega ein­hverjir þarna úti sem við höfum ekki fundið og eru ekki í sótt­kví þannig að við þurfum að vera undir­búin undir það og látum það ekki slá okkur út af laginu að þó að það hafi verið enginn í dag að þá greinist ein­hverjir næstu daga,“ sagði hann.

Enginn greindist þannig með inn­lent kórónu­veiru­smit á landinu í dag. Smitunum hefur fækkað frá því að sex­tán smit greindust síðasta fimmtu­dag. Á fjórum dögum hafa þannig að­eins sjö greinst með inn­lent smit.

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir boðaði þá til­slakanir á sam­komu­tak­mörkunum næsta föstu­dag. Á­fram yrði miðað við að ekki kæmu fleiri en hundrað manns saman en tveggja metra reglunni verður breytt í eins metra reglu í skólum landsins.

Víðir sagði því ljóst að leik- og grunn­skóla­starf gæti hafist í haust með nokkuð eðli­legum hætti og að út­lit væri fyrir að fram­halds­skólar og há­skólarnir gætu starfað opnari nú í haust heldur en í lok síðustu annar í miðri fyrri bylgju far­aldursins.

Tak­markanirnar sem taka gildi á föstu­dag verða svo endur­skoðaðar á næstu sjö til fjór­tán dögum.