Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir margt á réttri leið í miðborginni. Hann vitnar í færslu Guðjóns Friðrikssonar, sagnfræðings og rithöfundar.

Guðjón Friðriksson tók upp á því að telja öll rými fyrir verslunar- eða annan rekstur á götuhæðum húsanna á Laugaveg, Skólavörðustíg og Bankastræti. Hann segist hafa gert þetta af gamni sínu á rölti um miðbæinn.

„Alls reyndust þau samkvæmt minni talningu vera 251, þar af var 21 rými autt (8,4%) en 230 í rekstri. Verslanir í rekstri eru 150, veitingahús, barir og kaffihús eru 65 en annar rekstur í 15 rýmum (svo sem rakara-og hárgreiðslustofur, Gullnáman, tattoo, spa, eitt safn og fleira).“ Þetta kemur fram í færslunni sem Guðjón deildi á Facebook tímalínu sinni. Færslunni hefur verið deilt þó nokkrum sinnum og hefur skapast mikil umræða á athugasemda-þræði færslunnar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri deilir færslunni og skrifar: „Hér heima er margt á réttri leið og miðborgin að ganga í gegnum endurreisn og miklar og spennandi breytingar.“

Hann segir umræðuna um miðborgina stundum vera einsleita og villandi og að hann fagni færslu Guðjóns.

„Ánægjulegt að fá eitthvað fræðandi í stað bölmóðs íhaldsaflanna,“ segir Þorsteinn Óskarsson, fyrrum forstöðumaður Landssíma Íslands, í athugasemd sinni við færsluna.

„Ég hélt að mest væri komið í eyði þarna.Takk fyrir fróðlegan pistil Guðjón. Það þarf bara engar áhyggjur að hafa af þessu,“ skrifar Jóhanna Friðfinnsdóttir myndlistarmaður.