
Á degi fjárfesta tilkynnti Elon Musk meðal annars að næsta verksmiðja Tesla yrði byggð í Monterrey í Mexíkó og að hún yrði stærsta bílaverksmiðja sem smíðuð hefur verið. Hún mun framleiða næstu gerðir Tesla-bíla og einnig hluti fyrir aðrar verksmiðjur. Margir höfðu búist við að Tesla myndi kynna „Model 2“ til sögunnar en af því varð ekki en yfirhönnuður Tesla, Franz von Holtzhausen, tilkynnti þó að hann yrði frumsýndur á seinni stigum. Einnig var tilkynnt að Cybertruck myndi fara í framleiðslu á þessu ári og sagt frá nokkrum breytingum á honum, þó að bíllinn líkist mjög þeim bíl sem frumsýndur var árið 2019. Loks var ekkert fjallað um Roadster-sportbílinn sem bendir til þess að hætt hafi verið við bílinn, alla vega í bili.

Yfirbygging Cybertruck-pallbílsins er að mestu leyti eins og hún var þegar bíllinn var fyrst kynntur. Yfirbygging úr ryðfríu stáli er enn til staðar en formað ál verður notað í bílinn að aftanverðu. Notuð verður risastór 8.000 tonna pressa til að forma afturhluta bílsins. Bíllinn mun koma í sýningarsali með þríhyrningslaga hliðarspegla en myndavélar verða fáanlegar sem aukabúnaður. Felgurnar sem voru á bílnum árið 2019 verða þó að öllum líkindum ekki á framleiðslubílnum. Að innanverðu er bíllinn orðinn hefðbundnari ef hægt er að segja það um Tesla-bíl. Í stað miðjusætis fyrir ökumann er kominn miðjustokkur og komið er kassalaga stýri. Einnig var tilkynnt að Cybertruck yrði fyrsti bíll Tesla til að fá nýtt 48 volta rafkerfi, sem koma mun í öllum nýjum Teslabílum í framtíðinni.

Margir höfðu spáð því að Elon Musk myndi frumkynna nýjan millistærðarbíl sem yrði minni en Model 3 og keppinautur ID.3-bíls Volkswagen. Skissur af slíkum bíl hafa verið á flakki á netinu og talað hefur verið um að bíllinn muni kosta undir 20.000 dollurum. Tesla kynnti engan slíkan bíl og kannski hafði það þau áhrif að hlutafé í Tesla féll um 5 prósent fyrsta daginn eftir kynninguna. Þó var talað um að undirvagn þessa bíls yrði ódýrari í framleiðslu og að hann yrði að öllum líkindum framleiddur í nýrri verksmiðju Tesla í Mexíkó.