Björg EA 7 var aflahæsta skip Samherja á síðasta ári með samtals 9.443 tonn af veiddum afla. Alls fóru þrjú skip Samherja yfir níu þúsund tonn því Kaldbakur EA 1 og Björgúlfur EA 312 gerðu það einnig. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Meginuppistaðan í afla skipanna var þorskur en einnig voru ýsa, ufsi og gullkarfi í heildaraflatölunni auk annarra tegunda.

Uppsjávarskipið Margret EA 710 var í fyrsta sæti þegar kemur að verðmætum því skipið kom með yfir tveggja milljarða aflaverðmæti á síðasta ári. Kaldbakur EA 1 og Björg EA 7 voru jöfn í öðru og þriðja sæti rétt rúmlega tvo milljarða.