„Ég hef alveg verið hressari. Ég er samt ekki með mikinn hita; 5, 6, 7 kommur kannski,“ segir Margrét Gauja Magnús­dóttir, leið­sögu­maður og fyrr­verandi bæjar­full­trúi í Hafnar­firði, sem er nú í ein­angrun á heimili sínu með Co­vid-19.

Fjórir dagar eru síðan Margrét byrjaði að finna fyrir ein­kennum Co­vid-19 en þá var hún að keyra hóp ferða­manna hringinn í kringum landið. Margrét segir að fyrstu ein­kenni hafi ekki endi­lega verið dæmi­gerð – en þó ekki ó­þekkt – fyrir þá sem greinast með Co­vid-19.

„Ég get aldrei gert neitt eins og venju­legt fólk. Ég fékk heiftar­lega maga­verki og læknirinn sem tók sýnið vill meina að þessa verki megi rekja til Co­vid-19, en það er ekkert búið að fá úr því skorið,“ segir Margrét og bætir við að hún hafi í fyrstu bara talið að um hægða­tregðu væri að ræða.

Hóstinn hætti ekki

Þó hún sé orðin að­eins betri af þessum meltingar­ein­kennum eru þau enn til staðar. „Það er enginn með svona mikla hægða­tregðu. Ég var ekki búin að vera með nein ein­kenni eða neitt en þeir vilja meina að þetta tengist,“ segir Margrét.

Þegar Margrét var á leið frá Akur­eyri til Borgar­ness á dögunum byrjaði hún að hósta.

„Ég var búin að í­mynda mér að ef ég myndi fá þennan Co­vid-vírus og færi að hósta að þetta yrði alveg ein­hver meiri­háttar hósti,“ segir hún og bendir á fjölda þeirra sem fengið hafa lungna­bólgu í kjöl­far Co­vid-19. Annað kom á daginn eins og Margrét lýsir.

„Þetta var ein­hver til­gerðar­legasti og píku­legasti hósti sem ég hef upp­lifað,“ segir hún og bætir við að hóstinn hafi samt ekkert hætt. Þegar hún kom heim í fyrra­dag, þann 25. mars, og fékk hita var hún nokkuð viss um að hún væri komin með kórónu­veiruna.

„Ég hringdi í 1700 og þar talaði ég við dá­sam­lega konu og lýsti ein­kennunum fyrir henni,“ segir hún en á þessum tíma­punkti var hún að drepast í maganum. „Þá bað hún mig um að koma niður eftir, sagði að það væri lítið að gera og það myndi læknir taka á móti mér.“

Margrét segir að yndis­legur maður, Þórarinn að nafni, hafi tekið á móti henni og skoðað hana í bak og fyrir. „Hann á­kveður að eyða í mig pinna þó þarna hafi verið pinna­skortur og ég fékk móral yfir því,“ segir Margrét og bætir við að læknirinn hafi verið fljótur að svara því til að hún þyrfti ekki að fá neinn móral yfir því. Enda kom niður­staðan 18 tímum síðar og reyndist sýnið já­kvætt.

„Gjör­sam­lega til fyrir­myndar“

Það var nokkuð létt yfir Margréti þegar blaða­maður náði tali af henni og stutt í grínið. Hún vill þó hrósa sér­stak­lega hvernig heil­brigðis­yfir­völd hafa haldið á spilunum síðan far­aldurinn kom upp.

„Mér líður eins og ég gæti ekki verið í betri höndum. Þetta ferli sem er búið að eiga sér stað síðasta sólar­hring er gjör­sam­lega til fyrir­myndar. Ég stend með öllu þessu fólki og sendi dá­semdar­kveðjur,“ segir hún og bætir við að hún hafi lík­lega sjaldan verið jafn mikið í símanum og síðasta sólar­hring. Læknirinn sem skoðaði hana hafi hringt í hana og þá hafi starfs­fólk Co­vid-teymisins haft sam­band.

Ó­víst hvar hún smitaðist

Margrét segir ó­víst með öllu hvar hún náði sér í Co­vid-19. Sem fyrr segir hafði hún verið í hring­ferð um landið með hóp ferða­manna og mögu­lega hafi ein­hver af þeim borið smit. Enginn af hennar nánustu hafi veikst en ferðin tók í það heila átta daga.

Margrét segir að vel hafi verið hugað að smit­vörnum meðan á ferðinni stóð; bíllinn hafi verið sótt­hreinsaður dag­lega, far­þegar verið hvattir til að spritta sig reglu­lega og þá hafi hún sjálf lokað sig af í lok hvers dags. „Það voru allir komnir með rúsínuputta af spritt­notkun,“ segir hún.

„Tökum þetta á kassann“

Margrét er nú í ein­angrun í her­bergi dóttur sinnar og segir hún að það fari á­gæt­lega um hana – enn þá að minnsta kosti.

„Ég er lasin þannig að maður er svona mókandi. En þegar ég fer að hressast mun ég örugg­lega missa vitið. Það eru flestir í kringum mig hræddastir um hvað gerist fyrir mig nú þegar ég er komin í ein­angrun,“ segir Margrét sem er ekki beint þekkt fyrir að sitja auðum höndum.

„Ég var að hugsa um að stofna fé­lag Co­vid-sýktra á Ís­landi og fara í réttinda­bar­áttu – berjast gegn smit­skömminni,“ segir Margrét og hlær.

Margrét kveðst þakk­lát fyrir það að vera al­mennt við góða heilsu. Þá kveðst hún ekki síst þakk­lát fyrir þá vini og vanda­menn sem eru boðnir og búnir að að­stoða nú þegar hún er í ein­angrun og eigin­maður hennar og börn í sótt­kví. „Við bara tökum þetta á kassann. Ég held að við munum alveg komast í gegnum þetta.“