Margrét Frið­riks­dóttir, rit­stjóri Fréttin.is, segir að hún ætli að draga Icelandair fyrir dóm­stóla eftir að henni var vísað úr flugi í lög­reglu­fylgd á dögunum. Margrét lagði inn bóta­kröfu á Icelandair í gær vegna málsins en fékk synjun.

Frétta­blaðið greindi frá því síðast­liðinn föstu­dag að Margréti hefði verið vísað úr flug­vél Icelandair í fylgd lög­reglu eftir að til orða­skipta kom á milli hennar og starfs­manna Icelandair vegna grímu­skyldu og hand­tösku sem hún hugðist taka með sér í flugið til Þýska­lands.

Margrét lýsti því að starfs­menn Icelandair hefðu verið með „rosa­lega stæla“ og sagt við hana að ekki væri pláss fyrir töskuna í far­angurs­hólfinu fyrir ofan sætið hennar. Annað hafi komið á daginn þegar hún kíkti sjálf og þá hafi nóg pláss verið.

„Svo fóru þær að tala um að það væri grímu­­skylda og ég sagði bara ha? Er grímu­­skylda? Ég er ekki búin að heyra um það lengi, ég hélt þetta væri bara búið þetta Co­vid. En þeim fannst ég vera með rosa vesen og vísuðu mér úr vélinni og ég fékk ekki að fljúga,“ sagði Margrét.

Í færslu sem hún birti á Face­book-síðu sinni í gær­kvöldi kemur fram að Icelandair hafi ekki verið lengi að svara bóta­kröfu hennar. Svarið hafi komið innan þriggja klukku­stunda og þar hafi henni verið neitað um endur­greiðslu á fluginu.

„Icelandair er með allt niðrum sig í þessu máli og fer því málið fyrir dóm­stóla.“

Þá sagði Margrét að henni hafi borist lög­reglu­skýrsla vegna málsins í gær. Þar komi fram að hún hafi verið ró­leg og það stangist á við það sem flug­fé­lagið reynir að halda fram. Icelandair byggi mála­til­búnað sinn á ó­sannindum.

„Þess ber að geta að ég sam­þykkti að vera með grímu og þeir tækju hand­far­angurinn minn með dýrum og brot­hættum búnaði, þrátt fyrir þetta var mér vísað út fyrir framan fjölda vitna. Icelandair er með allt niðrum sig í þessu máli og fer því málið fyrir dóm­stóla,“ sagði Margrét í færslunni.

Í svari Icelandair, sem Margrét birtir, kemur fram að öryggi far­þega og á­hafnar sé á­vallt í fyrir­rúmi í öllu flugi á vegum fé­lagsins.

„Líkt og áður kann að hafa komið fram mat á­höfn flugsins, með framan­greind sjónar­mið að leiðar­ljósi, að hátt­semi og at­ferli þitt í að­draganda flugs FI532 þann 23. septem­ber væri þess eðlis að þau væru nauð­beygð að meina þér far með framan­greindu flugi. Verðum við því góð­fús­lega að hafna beiðni þinni um endur­greiðslu og/eða frekari bætur,“ segir meðal annars í svarinu.