Talið er að handsprengjan sem fannst á svokölluðu Patterson svæði nálægt Ásbrú um helgina hafi verið í jörðu og komið upp á yfirborðið í jarðvegslyftingum. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands, í samtali við Fréttablaðið.
Séraðgerða- og sprengjueyðingardeild Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis á sunnudag og mættu tveir liðsmenn sprengjueyðingarsveitarinnar á staðinn. Við nánari athugun kom í ljós að um virka handsprengju væri að ræða.

Mikilvægt að fólk gæti varúðar
Að sögn Ásgeirs gekk vel að eyða sprengjunni en margoft hefur verið leitað og hreinsað á svæðinu sem er þekkt sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins. Hann segir það þó koma fyrir að sprengjur á borð við þessa komi upp á yfirborðið.
„Leiki grunur á að um sprengju sé að ræða er mikilvægt að láta lögreglu vita,“ segir Ásgeir og leggur áherslu á að fólk gæti varúðar á svæðinu.