Talið er að hand­sprengjan sem fannst á svo­kölluðu Patter­son svæði ná­lægt Ás­brú um helgina hafi verið í jörðu og komið upp á yfir­borðið í jarð­vegs­lyftingum. Þetta stað­festir Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslu Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Sér­að­gerða- og sprengju­eyðingar­deild Land­helgis­gæslunnar var kölluð út síð­degis á sunnu­dag og mættu tveir liðs­menn sprengju­eyðingar­sveitarinnar á staðinn. Við nánari athugun kom í ljós að um virka hand­sprengju væri að ræða.

Gígur myndaðist á svæðinu eftir sprenginguna.
Mynd/Landhelgisgæslan

Mikil­vægt að fólk gæti var­úðar

Að sögn Ásgeirs gekk vel að eyða sprengjunni en marg­oft hefur verið leitað og hreinsað á svæðinu sem er þekkt sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins. Hann segir það þó koma fyrir að sprengjur á borð við þessa komi upp á yfir­borðið.

„Leiki grunur á að um sprengju sé að ræða er mikil­vægt að láta lög­reglu vita,“ segir Ásgeir og leggur á­herslu á að fólk gæti var­úðar á svæðinu.