Sigurlaug María Jónsdóttir, meðlimur Marglyttuhópsins, lagðist til sunds frá Dover um hálf sex í morgun. Þar með er boðsund hópsins yfir Ermarsundið, frá Dover í Englandi til Cap Gris Nez í Frakklandi, hafið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum.

Markmiðið með sundina eru að vekja athygli á plastmengun í sjónum. Í tilkynningu Marglyttanna kemur fram að þær hafi fengið að bragða á sjónum á æfingum sínum undanfarið og hann sé mikið mengaður og að þær þurfi að synda gegnum olíuflekki á leið sinni.

Framundan er 34 kílómetra sund, en hópurinn náði að nýta síðasta tækifærið til að fara yfir sundið áður en veður gerði það ómögulegt. Marglytturnar þurfu að bíða í sex daga eftir hagstæðum skilyrðum til að leggja af stað, en fyrir utan veðrið þurfa sjávarföll, ölduhæð og straumar að vera hagstæð fyrir svona sund.

Áætlað er að sundið taki um 16-18 tíma, en vegna strauma þarf oft að synda lengri leið en upphaflega er áætlað. Hver Marglytta syndir tvisvar til þrisvar.

Fiskibáturinn Rowen fylgir hópnum alla leið til og sinnir um leið eftirliti með skiptingum sundkvennanna, en þær þurfa að fylgja ákveðnum reglum til að sundið sé staðfest sem fullgilt sund af Ermarsundssamtökunum (The English Channel Association).

Sigurlaug María, sem reið á vaðið í morgun, sagði hópinn fullan tilhlökkunar og að þær væru afar þakklátar fyrir allan stuðninginn sem þeim hefur borist. „Það hefur verið yndislegt og hvetjandi að fá allar þessar góðu kveðjur sem okkur hafa borist til Dover undanfarna viku,“ sagði hún. „Við erum auðmjúkar, þakklátar, stoltar og tilbúnar í þessa áskorun.“

Posted by Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé on Monday, September 9, 2019

Marglyttur eru sundkonurnar Sigurlaug María Jónsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir (Ermarsundskona), Halldóra Gyða Matthíasdóttir, Birna Bragadóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir og Brynhildur Ólafsdóttir, auk skipuleggjendanna Grétu Ingþórsdóttur og Soffíu Sigurgeirsdóttur.

Hægt er að styðja við boðsundið, en öll áheit renna óskipt til Bláa hersins. Það er hægt að gera í AUR appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219 (í nafni Grétu Ingþórsdóttur). Hægt er að fylgjast með Marglyttunum á Facebook.