Þau stórtíðindi urðu í íslenskum sjávarútvegi í gær að Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað keypti útgerðarfyrirtækið Vísi í Grindavík. Það þýðir að tvö af stærstu útgerðar­­­fyrirtækjum landsins renna saman í eitt, ef Samkeppniseftirlitið samþykkir kaupin.

„Jú, ég hef áhyggjur af þessu eins og öll þjóðin, held ég, og það er ekki gott að samþjöppunin í sjávarútvegi verði svona mikil,“ segir Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur. „En þetta virðist bara vera að gerast mjög hratt, miklu hraðar en fólk hafði trú á.“

Söluverð útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík er 31 milljarður króna. Eigendur fyrirtækisins verða kjölfestufjárfestar í Síldarvinnslunni og fá auk þess 30 prósent kaupverðsins greidd í reiðufé. Vísir er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í 55 ár.

Væntanlegar aflaheimildir Vísis á fiskveiðiárinu 2022–2023 nema um 15 þúsund þorskígildistonnum, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Ársveltan var rúmlega 10 milljarðar króna og hagnaður ársins liðlega 800 milljónir króna. Síldarvinnslan hf. er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og er helsti framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi.

Síldarvinnslan er skráð í Kauphöll Íslands og eru hluthafar hátt í fimm þúsund. Á fiskveiðiárinu 2022–2023 eru væntanlegar aflaheimildir samstæðunnar liðlega 36 þúsund þorskígildistonn. Ársveltan 2021 var yfir 30 milljarðar króna og hagnaður um 11 milljarðar króna.

„Fjölskyldufyrirtæki lenda alltaf á þessum tímapunkti fyrir rest,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri og einn af eigendum útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, um söluna á fyrirtækinu. „Þetta voru sex fjölskyldur sem áttu Vísi, nú verða það fimm þúsund manns því Síldarvinnslan er almenningshlutafélag,“ segir Pétur.

Línubáturinn Fjölnir sem er gerður út frá Grindavík af útgerðafélaginu Vísir.
Mynd/AntonBrink

Fréttablaðið heimsótti Grindavík í gær og tók nokkra bæjarbúa tali um þessi stóru tíðindi fyrir atvinnulíf bæjarins.

Flestir voru jákvæðir og töldu enga ástæðu til að hafa áhyggjur af framtíð Grindavíkur. Þó voru aðrir sem sögðust óttast útþenslu Samherja, sem er stærsti hluthafinn í Síldarvinnslunni hf. sem kaupir Vísi ef Samkeppniseftirlitið samþykkir viðskiptin.

„Samherji hefur farið ránshendi um landið og er þetta ekki sama dæmið?“ segir Þorbjörn Ingi Ólafsson, íbúi í Grindavík. ,,Ég hef áhyggjur af þessu en vonum það besta, en reiknum með því versta,“ segir hann.

„Mér líst bara vel á þetta,“ segir Hulda Halldórsdóttir, íbúi í Grindavík. „Ef fyrirtækið helst í plássinu, eins og þeir segja að það geri og ég held það líka. Fólkið sem er að selja segir það og ég treysti því. Það er flott fólk.“

Ertu búin að hugsa eitthvað um þessi kaup Síldarvinnslunnar á Vísi?

„Já, hvað er að því?“ segir Gerður Tómasdóttir, íbúi í bænum. „Þetta er bara eðlilegasti hlutur í heimi.“

Ertu ekkert hrædd um að þetta muni þýða breytingar hér í Grindavík?

„Nei, ég held að þetta gæti orðið til góðs.“

„Ég er gríðarlega jákvæður,“ segir Óli Ólafsson íbúi. „Þetta styrkir atvinnustarfsemina hér í Grindavík. Bolfiskvinnslan hérna hjá Vísi mun eflast við þetta. Og ég er alls ekki hræddur við kvótasamþjöppun, ég er 100 prósent stuðn­ings­maður stórútgerðarinnar,“ segir Óli Ólafsson.