Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, var gestur Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra í nýjum fimmtán mínútna þáttum sem ráðherrann hyggst halda úti á næstu vikum og mánuðum.

„Ungt fólk sem vill hafa áhrif á samfélag sitt á að leita eftir því að gera það,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs meðal annars í spjalli sínu við Áslaugu Örnu á Instagram í dag. Solberg hóf afskipti sín af bæjarpólítík í Bergen aðeins átján ára gömul, var kosin á norska þingið 28 ára gömul og varð forsætisráðherra árið 2013, önnur kvenna. Menntamálin voru það sem hún brann fyrir og gerir enn. Ef hún væri ekki í stjórnmálum, hefði hún vel getað hugsað sér að verða kennari.

Kommentakerfin verði sífellt harðari

Hún segir mikið hafa breyst síðan hún feril sinn í stjórnmálum. „Samfélagsmiðlar voru til að mynda ekki til þegar ég byrjaði, allt snerist um dagblöð og útvarp. Nýju miðlarnir eru mikilvægir, en það þarf að tengja þetta allt saman. Samfélagsmiðlarnir hafa það yfir hina hefðbundnu að þar geturðu líka sýnt frá þínu daglega lífi, sýnt hver þú ert. Vandamálið við þá er að kommentakerfin verða sífellt harðari. Maður þarf að brynja sig áður en maður fer þangað inn og passa að taka það sem sagt er ekki of mikið inn á sig,“ útskýrði Erna. „Það er fullt af fólki sem virðist gleyma sínu góða uppeldi um leið og það sest fyrir framan tölvuskjáinn,“ sagði hún.

Mikilvægt að skapa fleiri störf

Erna sagði mikilvægast fyrir norskt samfélag eftir að heimsfaraldurinn gengur yfir að skapa fleiri störf. „Og að hvetja til þátttöku á vinnumarkaði. Við erum með of marga utan vinnumarkaðarins í Noregi af einhverjum ástæðum. Til að mynda þeir sem ekki hafa getað sótt sér menntun, eða hafa lent í einhverju eða orðið veik. Við þurfum að finna leiðir til þess að koma þessu fólki út á vinnumarkaðinn.“

Noregur sé land sem byggi velferð sína á olíu og gasi. „Vandinn er sá að við munum halda áfram að byggja samfélag okkar á þessum stoðum, en sjálfvirknivæðingin er að verða til þess að það verða ekki til jafn mörg störf í kringum þetta. Áskorunin framundan er að verða grænni, greindari og leggja áherslu á nýsköpun.“

Að lokum beindi hún þeim orðum til ungs fólks að leyfa ekki öðrum að skilgreina velgengni þeirra. „Velgengni verður einungis skilgreind út frá ykkur sjálfum. Velgengni er að ná þínum markmiðum – ekki leyfa öðrum að skilgreina mælikvarðana.“

Spáir Norðmönnum sigri í kvöld

Erna spáði norska landsliðinu sigri á frökkum í landsleik sem fram fer á milli þjóðanna í kvöld á Heimsmeistaramótinu í handbolta. Íslenski dómsmálaráðherrann kvaddi þó Ernu með þeim orðum að norðmenn gætu hins vegar aldrei tekið Íslendingana.

Áslaug og Erna töluðu saman í um fimmtán mínútur.
Mynd/Instagram