Rúmlega 70 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem taka afstöðu, telja að sameina megi einhver sveitarfélög á svæðinu.
Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið.
„Mér finnst þessar niðurstöður ekki benda til þess að þetta sé mjög brýnt mál í hugum fólks. En íbúar á svæðinu virðast vera opnir fyrir því að þetta verði skoðað,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Hún segist ekki hafa fundið fyrir áhuga eða þrýstingi frá íbúum um sameiningu á svæðinu undanfarin ár, hvorki sem bæjarstjóri né formaður SSH.
„En þetta er kannski líka ákall um meiri samvinnu þar sem hægt er að hagræða og reka hlutina oft betur saman en í sundur. Það á ekki alltaf við, en á oft við. Slík samvinna hefur verið að aukast jafnt og þétt á undanförnum árum milli sveitarfélaganna innan SSH.“
Rósa segir að það sé merkilegt að áhuginn virðist vera meiri eftir því sem íbúafjöldi sveitarfélagsins er meiri.
Þeir sem svöruðu því játandi að sameina mætti einhver sveitarfélögin, voru einnig spurðir um hvaða sveitarfélög það ættu að vera. Flestir nefndu sameiningu allra sveitarfélaganna, eða tæpur helmingur hópsins.
„Það kemur engin afgerandi niðurstaða, finnst mér, hvaða sveitarfélög ættu að sameinast. Það yrðu alltaf að vera viðkomandi sveitarfélög og íbúar sem þyrftu að taka upp það samtal,“ segir Rósa.
Þótt fólk sé opið fyrir því að einhvers konar sameining verði rædd og skoðuð, segir Rósa ekki vera hreinar línur hvernig það ætti að gerast og af hverju.
„En þetta styður í raun við það sem hefur verið að gerast á vettvangi SSH. Það er að aukast samstarf í hinum ýmsu málaflokkum.“

Mismikill áhugi í sveitarfélögunum
Íbúar á landsbyggðinni eru enn frekar á því að sameina megi einhver þessara sveitarfélaga. Þar telja tæp 81 prósent að sameina megi einhver þeirra.
Hlutfallslega flestir íbúar í Reykjavík eru á því að sameina megi einhver sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Rúmt 81 prósent er á þeirri skoðun, en hlutfallið er rúm 73 prósent í Kópavogi, tæp 58 prósent í Hafnarfirði og rétt rúmur helmingur í Garðabæ.
Áhuginn er öllu minni í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi, þar sem um tveir af hverjum þremur vilja ekki sameiningu á höfuðborgarsvæðinu.
Ef aðeins er litið til íbúa á höfuðborgarsvæðinu reynast karlar heldur spenntari fyrir sameiningu en konur. Rúm 77 prósent karla telja að sameina megi einhver sveitarfélög, en rúm 66 prósent kvenna.
Þá er eldra fólk nokkuð áhugasamara um sameiningu sveitarfélaga en yngra fólk.
Þannig eru á bilinu 77 til 81 prósent þeirra sem eru eldri en 45 ára á því að sameina megi einhver sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið er hins vegar 55 prósent hjá þeim sem eru 18-24 ára. Í aldurshópnum 35-44 ára eru 70 prósent hlynntir einhverri sameiningu, og litlu færri hjá 25-34 ára.
Hið sama gildir um tekjuhærri hópa sem eru líklegri til að styðja sameiningu en tekjulægri hópar.
Rúm 79 prósent þeirra sem hafa 600 þúsund krónur í tekjur á mánuði telja að sameina megi einhver sveitarfélögin. Hlutfallið er um það bil tveir þriðju hjá þeim sem hafa lægri tekjur en 600 þúsund á mánuði.
Þeir sem svöruðu því að sameina mætti einhver sveitarfélaganna, voru einnig spurðir um það hvaða sameiningu þeir vildu helst sjá. Svarendur gátu þar merkt við fleiri en einn valmöguleika.
Af íbúum á höfuðborgarsvæðinu svöruðu flestir, eða tæpur helmingur því, að sameina mætti öll sveitarfélögin á svæðinu í eitt sveitarfélag. Næstflestir nefndu sameiningu Reykjavíkur og Seltjarnarness, eða rúm 44 prósent.
Rúm 27 prósent svöruðu að sameina mætti Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ og tæp 22 prósent að sameina mætti Reykjavík og Mosfellsbæ.
Þá nefndu rúm 15 prósent sameiningu Hafnarfjarðar og Garðabæjar, tæp tíu prósent sameiningu Kópavogs og Garðabæjar og rúm átta prósent sameiningu Reykjavíkur og Kópavogs.
Ef svör íbúa á landsbyggðinni eru skoðuð, kemur í ljós að tveir af hverjum þremur sem vilja sjá einhverja sameiningu nefna sameiningu allra sveitarfélaganna.
Könnunin sem var send á könnunarhóp Zenter, var framkvæmd 16. til 28. júlí. Í úrtaki voru 2.600 manns 18 ára og eldri, en svarhlutfall var rúm 55 prósent. Gögnin voru greind eftir kyni, aldri og búsetu.