Leikkonan Aldís Amah Hamilton segir að það sé erfitt fyrir marga listamenn af blönduðum uppruna að tjá sig um skort á fjölbreytileika í leikaravali leikhúsanna. Lítið og þétt samfélag geri það að verkum að óttinn við slæm viðbrögð og útskúfun sé alltaf til staðar. 

Hún hafi þó fundið sig knúna til að segja eitthvað þegar hún sá kynningarefni fyrir komandi leikár þar sem einsleitnin hafi stungið í stúf. Eigi það sérstaklega við á tímum þar sem umræða um minnihlutahópa hafi verið áberandi en Aldís segir það vera í verkahring leikhúsanna að endurspegla samfélagið eins og það leggi sig.

Erfitt að finna jafn einsleitan hóp

„Ég ætti erfitt með að fara út úr húsi og finna aðstæður þar sem svo einsleitur hópur kæmi saman, nema í leikhúsinu,“ skrifaði Aldís í Facebook-færslu þar sem hún vakti athygli á málinu. 

Hún segir í samtali við Fréttablaðið að nú sem aldrei fyrr sé það ljóst að það sé á ábyrgð stjórnenda í menningarlífinu að gæta þess að stofnanir þeirra séu í takti við tímann.

„Valdhafar þurfa að leggja á sig þá auka vinnu að ganga úr skugga um að hópurinn sem þú ert með sé raunveruleg speglun á samfélaginu. Þegar þú tilheyrir meirihluta innan þjóðfélagsins þá er skiljanlega erfitt að gera sér grein fyrir því að eitthvað vantar, en það er algjörlega í þeirra höndum að gefa öllum tækifæri á að spegla sig í listinni.“

Umrædd kynningarmynd Þjóðleikhússins sem sýnir leikhópinn í haust.
Mynd/Þjóðleikhúsið

Leikhúsin þurfi að endurspegla samfélagið

Aldís starfaði hjá Þjóðleikhúsinu á leikárinu 2016-17 og segir að á síðustu árum hafi yfirleitt verið minnst einn leikari af blönduðum uppruna verið fastráðinn hjá Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu. 

„Kannski er það vegna þess að þetta árið hefur samfélagsleg umræða og stjórnmál hérlendis og erlendis beint sjónum sínum að ýmsum minnihlutahópum að þetta var sérstaklega augljóst þegar maður sá þessa mynd.“

Þá bætir hún við að málið snúist ekki einstaka persónur, hvorki sjálfa sig né þá mörgu vini sína sem prýði umrædda mynd Þjóðleikhússins. Málið snúist um þá ábyrgð leikhúsanna að endurspegla samfélagið sem þau þjóni. Vill Aldís að fólk líti á þetta ákall hennar sem vingjarnlega ábendingu en ekki árás á einn né neinn.

Mikilvægt að benda á misskiptinguna

Eins og áður segir telur Aldís að margir leikarar veigri sér við að ræða þessi mál og gagnrýna leikhúsin opinberlega.

„Fólk gerir sér ekki grein fyrir þessari misskiptingu nema þeim sé bent á hana en svo þora fáir að gagnrýna leikhúsin því það vill auðvitað enginn enda í óþökk, ég þar með talin. Það verður bara svona þögul gremja sem gæti grasserað og valdið enn meiri sárindum.“ 

„Við ræddum þetta nokkrir leikarar um daginn og eftir því sem á leið voru fleiri blandaðir Íslendingar í kringum mig farnir að vekja athygli á þessu í lokuðum hópum. Ég fann mig skyndilega knúna til að segja eitthvað um þetta opinberlega en bjóst ekki við að fleiri en við hefðum skoðun á þessu.”

Í ljósi þessa hafi það komið henni nokkuð á óvart hversu jákvæð viðbrögðin voru sem hún fékk við Facebook-færslunni. 

„Kannski er það tíðarandinn í dag með öllu sem hefur gengið á að fólk er rosalega uppfullt af samkennd og vill held ég bæta kjör nágranna sinna.“

Fulltrúa 1/6 landsmanna vanti á myndina

„Þessi jákvæðu viðbrögð sýna að mínu mati að það er engin ástæða til að óttast það að vera með alls konar fólk á sviði, svo lengi sem það eru auðvitað góðir leikarar. Það þarf að taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta gegn norminu að fastráða eingöngu leikara sem líta út eins og Ísland gerði fyrir þrjátíu árum.“

Hún segir að leikhúsin geti meðal annars horft til íslenska kvikmyndaiðnaðarins þegar kemur að þessum málum. 

„Ég tel að það megi hampa kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum sem er að standa sig mjög vel að þessu leyti. Ég veit ekki hvort þar sé bara almennt hraðari þróun, meira þor eða hvað en það virðist vera eins og í þeim iðnaði séu valdhafar aðeins meira á nótunum varðandi þetta samanborið við leikhúsin.“

Að lokum bendir Aldís á að samkvæmt nýútgefnum gögnum Hagstofunnar sé fólk af fyrstu og annarri kynslóð innflytjenda 16,8% af íbúum hér á landi, eða um 1/6 af mannfjöldanum. 

„Það er bara frekar stór sneið af kökunni sem endurspeglast ekki framan á þessu plaggati.“