Þrjú slys urðu á aðeins fimm dögum á Fimmvörðuhálsi fyrir skemmstu. Einn hinna slösuðu var Íslendingur og hinir tveir erlendir ferðamenn. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir tíðarfarið og mannfjöldann helstu skýringuna.

„Fjöldi útkalla sveiflast töluvert á milli ára,“ segir Davíð. „Sumarið í fyrra var rólegra og sumarið þar áður enn rólegra.“

Davíð segir að fólk eigi það til að vanmeta aðstæður og ofmeta eigin getu. Á stað eins og Fimmvörðuhálsi geti veður skipast skjótt í lofti. Í nýjasta útkallinu sá Davíð bláan himinn breytast í svartaþoku á örskömmum tíma.

„Þarna ertu kominn upp á hálendi, í 1.100 metra hæð. Það var snjór þar sem útkallið var í gær. Við ákváðum að fara upp snjóskaflinn af því að það var talið öruggara en að fara upp grjótið.“

Að sögn Davíðs er sífellt verið að bæta við skiltum og auka upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna.

„Í fullkomnum heimi væru þarna mannaðar stöðvar eins og þekkist víða erlendis. Þar ferðu ekki inn á gönguleiðir án þess að tala við landvörð, gera grein fyrir þér og fá mat á því hvort þú sért nógu vel búinn fyrir ferðina.“

Landsbjörg verðleggur ekki hvert útkall og Davíð segir að mesti kostnaðurinn felist í því að hafa menn til staðar. Allt sé unnið í sjálfboðavinnu og stuðningur atvinnurekenda sé ómetanlegur.