Fjöldi sjúklinga sem greinst hafa með Covid-19 upplifir langvarandi einkenni og eftirköst að einangrun lokinni. Anna Hafberg, hjúkrunarfræðingur á Covid-göngudeild Landspítala, segir í samtali við Fréttablaðið að jafnvel þau sem ekki hafi verið mikið veik af Covid geti upplifað eftirköst.

„Það er því mikilvægt að fara varlega af stað eftir veikindin,“ segir Anna en tæplega ellefu þúsund hafa náð sér af kórónaveirusmiti hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku fræðamiðstöðinni Mayo Clinic, geta eftirköst Covid-19 varað mánuðum saman þrátt fyrir að flestir sem smitist jafni sig á nokkrum vikum.

Flestir þeirra sem upplifi langvarandi einkenni eða eftirköst séu eldra fólk eða einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma en ungt og heilbrigt fólk geti þó vel fundið fyrir einkennum í lengri tíma.

Algengustu langvarandi einkennin eru samkvæmt Mayo Clinic meðal annars mæði, hósti, liðverkir og hiti en minnisleysi og þunglyndi hefur einnig verið nefnt.

Helstu langvarandi einkenni Covid-19

Þreyta

Mæði eða öndunarerfiðleikar

Hósti

Liðverkir

Brjóstverkur

Minnis- og einbeitingarskortur

Svefnvandamál

Vöðva- og höfuðverkir

Hraður/þungur hjartsláttur

Tap á bragð- og lyktarskyni

Þunglyndi og kvíði

Svimi