Margir strætisvagnar festust í snjó um helgina eða löskuðust, sumum ferðum var aflýst, upplýsingagjöf var í einhverjum tilvikum ábótavant.

Eitt dæmi er að farþegar biðu norpandi eftir strætó á Akureyri til Reykjavíkur eftir að ákveðið hafði verið að fella ferð þeirra niður án þess að skilaboðum væri sem skyldi komið á framfæri.

Framkvæmdastjóri Strætós, Jóhannes Svavar Rúnarsson, segir að síðustu dagar hafi verið krefjandi. Nokkrir strætóar hafi nuddast út í önnur ökutæki eða annað í hálku, þeir séu nú bilaðir og úr leik í bili.

„Það eru um átta eða níu bílar bilaðir hjá okkur, við þurftum meðal annars að fella niður ferðir vegna þessa,“ segir Jóhannes Svavar. Spurður hvort það hafi komið til álita að setja keðjur undir strætóana, hlær framkvæmdastjórinn.

„Keðjur hafa ekki verið notaðar í áratugi, ekki síðan ég var barn.“

Jóhannes Svavar segir að Strætó muni fara yfir stöðuna og hvernig hægt sé að bæta upplýsingastreymi til að reyna að ná til enn breiðari hóps.

„En það er fullt af snillingum þarna úti sem þykjast hafa allar lausnir þegar svona ástand skapast.“

Framkvæmdastjóri Strætós segir mikilvægt að landsmenn geti fengið sér far með almenningssamgöngum, ekki síst þegar einkabíllinn sé stopp undir snjó í ómokaðri götu.

„Við gerum okkur far um að halda úti sem bestri þjónustu, einmitt vegna þessa.“