Foreldrar nemenda í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, FB, hafa áhyggjur af því að staðnám skuli vera skemur á veg komið en annars staðar og að bóknám eldri nemenda sé enn alfarið í fjarnámi. Þetta sé ekki staðan í öðrum framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu þar sem kennslan sé annaðhvort staðnám eða farin blönduð leið.

Framhaldsskólarnir hafa flestir byrjað með staðnám fyrir nemendur að fullu eða hluta. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði og Kvennaskólinn hafa til dæmis farið blandaða leið, þar sem nemendur mæta hluta úr degi í skólann. Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum skiptir staðnámi sumra áfanga eftir vikum.

Sumir skólar byrjuðu með fullt staðnám í upphafi annar en aðrir hafa byrjað með fjarnám en eru nú komnir í staðnám. Til dæmis Verzlunarskólinn 11. janúar og Menntaskólinn á Akureyri 18. janúar.

Elvar Jónsson, aðstoðarskólameistari FB, segist hafa skilning á áhyggjum foreldra barna sem eru alfarið í fjarnámi en verið sé að auka við staðnámið jafnt og þétt. „Við erum mjög meðvituð um að þetta sé ekki æskilegt og höfum gert ráðstafanir til að koma fleirum inn í skólann,“ segir hann. „Við metum þetta á hverjum degi.“

Elvar segir að 60 prósent námshópa í dagskóla séu komin í fullt staðnám og 25 prósent í blandað. Um er að ræða nemendur í verklegu námi, sem eru nokkuð stór hluti af nemendahópi FB, og nýnema. Hins vegar eru það nemendur í bóklegu námi á öðru ári og eldri sem eru í fjarnámi.

Bendir hann á að samkvæmt reglugerð og litakóðunarkerfi sé nú næsthæsta viðbúnaðarstig, það er appelsínugult. Í því er gert ráð fyrir 50 til 100 prósenta staðnámi í framhaldsskólunum, eftir stærð og gerð. „Við teljum varasamt að taka inn alla áfanga miðað við aðstæður í FB og að nú sé næsthæsta viðbúnaðarstig,“ segir Elvar. „Húsnæði skólans er bara þannig og þrengsli víða. Þetta er gríðarlega fjölmennur skóli, með yfir 1.100 nemendur í dagskóla, margar brautir og stórar fyrir list- og verklegt nám.“ Hafi gámum verið bætt við til að koma fleirum fyrir.

Samkvæmt reglugerðinni frá því í desember mega framhaldsskólar hafa 30 nemendur og starfsmenn saman í rými og blöndun nemenda milli hópa er heimil. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu skuli nemendur og starfsfólk bera grímur.