„Enn sem komið er hafa fjórir heppnir lesendur Fréttablaðsins gefið sig fram við Borgarleikhúsið og sótt miðana sína, en fleiri hafa haft samband og eru væntanlegir á næstu dögum,“ segir Pétur Rúnar Heimisson, markaðsstjóri Borgarleikhússins.

Hundrað eintök Fréttablaðsins frá miðvikudeginum 24. nóvember voru einstök að því leytinu til að á blaðsíðu 3 var mynd af Emil í Kattholti - en ekki gjafabréfi - og ef þú varst svo heppinn að Emil leyndist í þínu blaði, þá hefur þú unnið þér inn gjafabréf fyrir tvo á sýninguna Emil í kattholti sem sýnd er í Borgarleikhúsinu nú um þessar mundir.

Vert er því að brýna fyrir lesendum Fréttablaðsins að henda ekki blaðinu sínu frá því á miðvikudag, heldur skoða vel blaðsíðu 3 og fullvissa sig um hvort að hinn uppátækjasami Emil leynist þar.

Þá segir Pétur uppátæki Fréttablaðsins og Borgarleikhússins hafa vakið gríðarlega mikla lukku enda til mikils að vinna.