Þrír voru fluttir slasaðir frá gos­stöðvum í Mera­dölum í nótt. Þá voru þó nokkuð margir illa búnir að sögn lög­reglunnar á Suður­nesjum.

Lög­reglan á­ætlar að um sjö­tu­íu til átta­tíu manns hafi verið á gos­stöðvum á fjórða tímanum. Þá hafi göngu­leiðin reynst mörgum erfið.

Þannig þurfti að flytja ein­stak­ling sem snúið hafði sig á ökkla niður af fjallinu. Annar fann til í fæti og þurfti að­stoð en þriðji göngu­maðurinn hafði hrasað í hrauni.

Lög­reglan segir að þrátt fyrir marg­mennið hafi gengið vel. „En á­ætlað er að á annað þúsund göngu­manna hafi verið á svæðinu í gær­­kvöldi.“

Hafa í huga að gossvæðið er hættulegt

Lög­reglan segir mikil­vægt að hafa í huga að gossvæðið sé hættu­legt svæði. Þar geti að­stæður breyst skyndi­lega.

„Lög­regla varar fólk við að dvelja ná­lægt gos­stöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífs­hættu­legar gas­tegundir safnast í dældum og geta reynst ban­vænar,“ segir lög­reglan.

Hún minnir á að nýjar gos­sprungur geta opnast með litlum fyrir­vara og glóandi hraun getur fallið úr hraun­jaðri og hröð og skyndi­leg fram­hlaup orðið þar sem nýjar hraun­tungur brjótast fram, sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.

Skilaboð Veðurstofu til gosfara:

Veðurstofa Íslands heldur úti gasdreifingarspá á vef sínum.

  • Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mengunin leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgosins með vindinn í bakið.
  • Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í lægðum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
  • Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni
  • Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.