Björgunarsveitir af Suðurlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu hjálpuðu tugum sem lentu í vanda vegna ófærðar í gærkvöldi og nótt. RÚV segir frá.

Í gærkvöldi bárust margar beiðnir um aðstoð á Suðurlandi, en þar var appelsínugul viðvörun í gildi til miðnættis. Á Grindavíkurvegi myndaðist nokkur hundruð metra löng bílaröð vegna ófærðar sem þurfti að hjálpa til við að greiða úr og um miðnætti höfðu um fimmtíu beiðnir um aðstoð borist af Sólheimasandi, en þar var mjög hvasst og mikill skafrenningur.

Björgunarsveitir á Suðurlandi kom fólki úr bílum sínum og í skjól, ýmist austur á Vík eða vestur að Skógum.

Fólk lenti líka í vandræðum á Hellisheiði og Sandskeiði og víða var vegum lokað, en reynt er að halda stofnæðum opnum. Þegar leið á kvöldið fækkaði útköllum á Suðurnesjum en það var nóg að gera á Suðurlandi fram eftir nóttu. Þar færðist ró yfir um þrjú í nótt.

Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hefðu líka verið ræstar út til að aðstoða ökumenn sem voru fastir á Hafravatnsvegi, Þingvallavegi og Suðurlandsvegi.

Lokanir og tafir

Hellisheiði er opin en hún gæti lokast aftur með litlum sem engum fyrirvara ef veður versnar. Vegurinn um Þrengsli er lokaður og á Suðausturlandi er lokað frá Jökulsárlóni vestur úr, en þungfært er þaðan að Höfn.

Gert er ráð fyrir verulegum töfum á aksturþjónustu fatlaðra hjá Strætó í höfuðborginni í dag vegna ófærðar.