Tugir manna hafa leitað sér aðstoðar á Reykjalundi vegna eftirkasta COVID-19 sjúkdómsins. Hópurinn á það sammerkt að starfsþrek og úthald er lítið. Sumir þurfa jafnvel hjálp við að klæða sig og setjast upp.

Þetta kom fram hjá Stefáni Yngvasyni, endurhæfingarlækni og lækningaforstjóra Reykjalundar, í Fréttaþættinum 21 á Hringbraut í gær.

Litlu virðist skipta hvort einkenni sjúkdómsins hafi verið mikil eða lítil. Afleiðingarnar birtast með margvíslegu móti. Þar á meðal er andnauð, svæsinn magaverkur, hárlos, doði í jafnvel stórum hluta líkamans, sjóntruflanir, suð fyrir eyrum og jafnvægistruflanir.

Karólína Helga Símonardóttir, sem fékk sjúkdóminn, segir að eftirköstin í hennar tilviki séu ólík frá degi til dags. Hún hafi glímt við lungnaverki, málstol og jafnvægisleysi. Hún greindist í marsbyrjun og kveðst vonast til að ná sér að fullu en eftir tæplega hálft ár viti hún ekkert hvort hún vakni upp við verki eða ekki. Hún sæki styrk í hóp á Facebook þar sem um 600 einstaklingar, sem berjast við afleiðingar af COVID-19, stappi stálinu hver í annan og finni fyrir vikið ekki til vonleysis.