Hækkun íbúðaverðs í fjölbýli hefur verið tvöfalt meiri á Akureyri en í Reykjavík á árinu og rúmlega þrefalt meiri en á Selfossi og í Reykjanesbæ. Mikil aukning hefur verið í því að utanbæjarfólk kaupi sér aukaíbúð á Akureyri.

„Fjárfestar úr Reykjavík hafa verið að færa sig til Akureyrar. Það er óvenjuhátt hlutfall þeirra sem eiga íbúðir hérna á Akureyri sem er ekki með lögheimili,“ segir Arnar Birgisson, fasteignasali og eigandi Eignavers.

„Fólk er að kaupa sér annað heimili á Akureyri. Akureyri er í tísku.“

Samkvæmt fasteignamælaborði Deloitte var fermetraverð fjölbýlis á Akureyri tæplega 432 þúsund krónur í janúar en í júlí tæplega 571 þúsund. Þetta er hækkun upp á 32 prósent.

Hækkun fermetraverðs í Reykjavík er á sama tímabili 14,1 prósent og 13,6 á höfuðborgarsvæðinu öllu. Hæst 25,5 í Mosfellsbæ. Hækkunin á Suðurlandi og Reykjanesi er 12,1 prósent, þar af 8,8 prósent á Selfossi og 7,9 í Reykjanesbæ. Þessir tveir bæir hafa verið í hvað örustum vexti á landinu.

Í byrjun árs var fermetraverðið í Reykjavík 49 prósentum hærra en á Akureyri en í júlí var munurinn aðeins tæplega 29 prósent. Einnig er verðið á Akureyri farið að nálgast verðið í Hafnarfirði, sem er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu.

Arnar á hins vegar ekki von á því að verðið á Akureyri verði það sama og á höfuðborgarsvæðinu í fyrirsjáanlegri framtíð.

„Verðin eru að setjast,“ segir hann. „Það kom svolítið stopp eftir að seðlabankastjóri hækkaði vextina enn og aftur og þrengdi enn að lánaskilyrðum. Markaðurinn mun kólna á Akureyri eins og annars staðar.“

Telur hann að Akureyri sé að ná toppnum og að verðhækkun verði ekki umfram landsmeðaltal á komandi misserum. Salan sé þó ágæt enn þá og töluvert meira af eignum núna í sölu en í vor.

Ólíkt fjölbýlinu er þróun verðhækkunar á sérbýli hins vegar nokkuð í takt við hækkanir annars staðar á landinu. Þetta skýrist af því að utanaðkomandi séu ekki að þrýsta verðinu upp. „Akureyringar sjálfir eru að kaupa sérbýli,“ segir Arnar.