Í gær höfðu aðeins rúmlega 38 prósent skráningarskyldra lögaðila skráð raunverulega eigendur hjá Ríkisskattstjóra. Frá og með mánudeginum 2. mars verða lagðar sektir á þá sem ekki hafa staðið skil á upplýsingunum.

Að sögn Kristínar Gunnarsdóttur, sérfræðings á skrifstofu yfirstjórnar Ríkisskattstjóra, er um að ræða félög, félagasamtök og aðra aðila sem forms síns vegna eru skráð í fyrirtækjaskrá. Algengasta félagaformið sé einkahlutafélög sem séu tæplega 40 þúsund talsins, og þar hafi skil á upplýsingum verið vel viðunandi. Skil meðal tæplega 15 þúsund félagasamtaka hafi verið mjög slæm.

„Hér getur verið um að ræða foreldrafélög, kórfélög, starfsmannafélög og alls konar áhugamannafélög, sem flest eru rekin af sjálfboðaliðum. Þessi félög eru engu að síður öll skilaskyld og falla á þau sektir frá og með 2. mars skili þau ekki fullnægjandi upplýsingum,“ ítrekar Kristín.

„Ákveðins misskilning og ótta hefur gætt hjá forráðamönnum og félagsmönnum, varðandi annars vegar skyldu til að skrá raunverulega eigendur félaga og hins vegar vegna mögulegrar ábyrgðar sem í því gæti falist.

Rétt er að taka fram að skráning raunverulegra eigenda félaga á grundvelli laganna felur ekki í sér aukna ábyrgð viðkomandi einstaklinga á starfsemi þeirra, umfram þá ábyrgð sem þegar fylgir því að starfa í félögum,“ undirstrikar Kristín.

Þá tekur Kristín fram að vöntun á upplýsingum um raunverulega eigendur lögaðila sem skráðir séu í fyrirtækjaskrá sé ein af ástæðum þess að Ísland sé á hinum svokallaða „gráa lista“ í alþjóðasamfélaginu, listanum sem skapað hafi erfiðleika fyrir íslensk fyrirtæki í viðskiptum erlendis.

„Það er þess vegna ríkt hagsmunamál fyrir Ísland að vel takist til með tímanlega skráningu raunverulegra eigenda félaga,“ bendir Kristín á. „Vegna hagsmunanna af því að skráningu ljúki með fullnægjandi hætti verður ekki undan því vikist að fella frá og með 2. mars næstkomandi dagsektir á þá lögaðila sem enn hafa ekki skilað fullnægjandi upplýsingum um raunverulega eigendur sína til fyrirtækjaskrár Skattsins.“

Þess má geta að umrædda skráningu er hægt að gera rafrænt á vef Ríkisskattstjóra.