Geð- og fíknilæknir segir það hafa komið að óvart að sjá hversu margir alvarlega geðsjúkir einstaklingar eru vistaðir í fangelsum hér á landi.

Rætt var við Sigurð Örn Hektorsson, geð- og fíknilækni, í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Hann er einnig yfirlæknir nýs geðheilbrigðisteymis fangelsa á Íslandi.

Sigurður Örn segir geðsjúka fanga geta skaðast af fangelsisvistinni og að þeir þrífist illa innan veggja fangelsa. Fangelsin séu ekki góður staður fyrir veikt fólk.

Hann telur vanta úrræði fyrir þennan hóp og vill að fangar með geðsjúkdóma fái betri aðbúnað og aðgang að geðdeildum og geðheilbrigðisstofnunum utan fangelsanna.

Margir með ADHD

Nýtt geðheilbrigðisteymi fangelsa hér á landi sem Sigurður Örn leiðir hefur greint á annað hundrað fanga með ADHD og hafa þeir fengið meðhöndlun.

Sigurður Örn segir andrúmsloft innan fangelsa hafa breyst við meðferð fanganna og að margir þeirra hafi tekið miklum framförum.

Þegar geðheilbrigðisteymið tók til starfa árið 2020 kom að óvart hversu margir alvarlega geðsjúkir einstaklingar afpláni í fangelsum en Sigurður segir allt þá allt of marga.

Geðsjúkdómur ekki nóg

Við gerð sakhæfismats vegna ofbeldisbrota sé horft mjög þröngt á vandann, ekki sé nóg að vera með alvarlegan geðsjúkdóm, geðklofasjúkdóm eða í stöðugri þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu til að vistast á réttargeðdeild í stað fangelsis.

„Einstaklingurinn þarf að vera í sjúklegu ástandi við brotið til að teljast ósakhæfur og það má ekki orsakast af neyslu,“ segir Sigurður Örn í samtali við Læknablaðið.