Undirbúningur fyrir næstu alþingiskosningar er að fara af stað hjá stjórnmálaflokkunum. Landsfundir eru á dagskrá þeirra flestra á árinu; nokkrir snemma í vor og aðrir í haust. Vinstri græn riðu á vaðið með flokksráðsfundi í febrúar.

Sósíalistaþing 1. maí

Sósíalistaflokkur Íslands blæs til Sósíalistaþings sem hefst 1. maí næstkomandi en á félagsfundi 18. janúar síðastliðinn var ákveðið að hrinda undirbúningi fyrir kosningar af stað.

Gunnar Smári og aðrir Sósíalistar fögnuðu þegar fyrsti fulltrúi flokksins var kjörinn í síðustu borgarstjórnarkosningum.
Ernir

„Við erum náttúrulega með nýjan flokk sem er utan þings og lítum svo að við þurfum góðan tíma til að kynna okkur til að geta verið tilbúin þegar Bjarna Benediktssyni þóknast,“ segir Gunnar Smári Egilsson, stofnandi flokksins. Hann segir flokkinn nú vera að byggja sig upp um allt land enda stefnt að því að bjóða fram í öllum kjördæmum.

*Gunnar Smári er ekki formaður flokksins eins og segir í prentútgáfu blaðsins, heldur formaður framkvæmdarstjórnar hans. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Vígdís íhugar framboð

Miðflokkurinn heldur sitt landsþing á Hótel Natura síðustu helgina í mars. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er óumdeildur leiðtogi flokksins að mati þeirra sem Fréttablaðið ræddi við. Hins vegar munu flokksmenn farnir að hringjast á vegna varaformannsembætta.

Ekki liggur fyrir hvort varaformaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson hyggst halda áfram í stjórnmálum en heimildir blaðsins herma að Vigdís Hauksdóttir íhugi framboð í embættið.

Aðspurð segir Vigdís að vissulega ræði flokksmenn saman eins og gengur en hún hafi ekki ákveðið neitt í þessum efnum.

Gunnar Bragi Sveinsson var kjörinn varaformaður á stofnfundi Miðflokksins. Klausturmálið hefur litað mjög þetta fjórða kjörtímabil hans.
Ernir

„Ég hef nú þegar lýst því yfir að ég hafi hug á að verða næsti borgarstjóri en vika er langur tími í pólitík og maður veit aldrei,“ segir Vigdís, innt eftir því hvort henni hugnist að færa sig aftur yfir í landsmálin.

Ekki náðist í Gunnar Braga við vinnslu fréttarinnar.

Hitar upp fyrir Framsóknarþing

Þrátt fyrir djúpa dýfu sem Framsóknarflokkurinn hefur tekið í fylgi er óvíst að breytingar verði á forystu flokksins en stutt er í landsþing hans sem haldið verður um miðjan apríl.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur formaðurinn ekki í hyggju að stíga til hliðar, en margir urðu til að lesa í nýlegar yfirlýsingar varaformannsins um nauðsyn innspýtingar í hagkerfið, þannig að hún sé að hita upp fyrir landsþingið. 

Að sögn er þó góður andi í bæði í forystunni og þingliði flokksins.

Vorkosningar farsælli

Landsþing Viðreisnar fer fram á Grand hóteli 14. og 15. mars næstkomandi. Viðreisn hefur aukið fylgi sitt mest allra flokka frá kosningum og formaður flokksins segir andann í forystunni góðan. „Við lítum á okkur sem tvíeyki,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarssdóttur um samstarf þeirra Þorsteins Víglundssonar, varaformanns flokksins.

Gott samstarf er milli formanns og varaformanns Viðreisnar.
Ernir

Aðspurð segir Þorgerður ekki koma á óvart að Bjarna Benediktssyni hugnist ekki að kjósa fyrir en haustið 2021 eins og hann lýsti í viðtali í Silfrinu í gær. Að hennar mati eigi ákvörðunin þó ekki að ráðast af hagsmunum flokkana. Æskilegast sé að hafa kosningar í lok maí eða byrjun júní.

„Það er ekki góður bragur á því að lögð séu fram embættismannafjárlög fjórða hvert ár, sem er raunin þegar kosið er að hausti. Með vorkosningum hefur ný ríkisstjórn ráðrúm til að leggja sínar línur í fjárlagafrumvarpi og það lagt tímanlega fyrir Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið,“ segir Þorgerður.

Þrír haustfundir

Píratar höfnuðu nýverið tillögu um að formannsembætti verði tekið upp í flokknum og verður því ekki um slíkt kjör að ræða á þeirra aðalfundi.

Landsfundur Samfylkingarinnar er áformaður snemma í nóvember. Flokkurinn hefur verið á miklu flugi í skoðannakönnunum og hefur náð sér á gott strik eftir afhroð í kosningunum 2016 þegar flokkurinn fékk aðeins þrjá menn kjörna á þing.

Efast um leiðtogahæfni í flokki á flugi

Þótt Logi Einarsson sé almennt vel liðinn formaður eru skiptar skoðanir um leiðtogahæfni hans og heimildir Fréttablaðsins herma að rætt sé í þröngum hópum um þörf fyrir öflugri leiðtoga.

Helga Vala Helgadóttir, sem hefur verið einna mest áberandi þingmaður Samfylkingarinnar, hefur verið orðuð við forystuhlutverk í flokknum, jafnvel frá því áður en hún settist á þing fyrir rúmum tveimur árum. Þau Logi eru þó sögð vinna vel saman á þingi og þykir viðmælendum blaðsins líklegra að hún gæfi kost á sér sem varaformaður en að hún færi gegn sitjandi formanni og félaga í þingflokknum. Sjálf segist Helga Vala ekkert vera að velta þessum embættum fyrir sér.

Dagur: „Úr lausu lofti gripið“

Nafn Dags B. Eggertssonar hefur einnig verið nefnt og margir flokksmenn sem Fréttablaðið hefur rætt við segja að send hafi verið út könnun til að athuga stuðning við hann.

Sjálfur segir Dagur slíkar sögusagnir bæði rangar og úr lausu lofti gripnar. Aðspurður segist hann heldur ekki hafa leitt hugann að landsmálunum.

Landsfundur Samfylkingarinnar verður í nóvember. Borgarstjórinn og fyrrverandi varaformaður flokksins segist ekki vera að íhuga innkomu í landsmálin.
Ernir

Sitjandi varaformaður flokksins, Heiða Björg Hilmisdóttir, kveðst heldur ekki á förum úr ráðhúsinu. Hún eigi enn of mikið óunnið í borginni.

Bjarni hvergi á förum

Síðasti landsfundur ársins verður í Valhöll 13. til 15. nóvember og því enn umhugsunartími til stefnu hafi einhverjir Sjálfstæðismanna hug á forystuhlutverki í flokkunum.

Formaðurinn sjálfur, Bjarni Benediktsson, eyddi óvissu um eigin áform í Silfrinu í gær og lýsti því yfir að hann hafi hug á að sitja áfram á formannsstóli.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var kjörin varaformaður á síðasta landsfundi og Jón Gunnarsson er tiltölulega nýr ritari flokksins en hann tók við embættinu af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur þegar hún settist í stól dómsmálaráðherra í september síðastliðnum.

Landsfundir á árinu

Vinstri græn - Flokksráðsfundur fór fram  7. og 8. febrúar,

Viðreisn – Landsþing 14. og 15. mars,

Miðflokkurinn – Landsþing 28. og 29. mars,

Framsóknarflokkurinn - Flokksþing 18. og 19. apríl,

Sósíalistaflokkur Íslands – Sósíalistaþing 1. – 3. maí,

Píratar – Aðalfundur í ágúst eða september,

Samfylkingin - Landsfundur 6. og 7. nóvember,

Sjálfstæðisflokkurinn – Landsfundur 13. - 15. nóvember.

Flokkur fólksins heldur Landsfund þriðja hvert ár. Hann var síðast 2018.