Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í viðtali við Fréttavaktina í gærkvöldi að það væri áhyggjuefni að of margir gættu ekki nægilega að sér á milli fyrstu og annarrar landamæraskimunnar.

Hann sagði að undanfarið hafi töluvert borið á því að fólk fái neikvæða niðurstöðu í fyrstu skimun en greinist svo með COVID í seinni skimun.

„Fyrst fyrir kannski þremur vikum síðan að það kemur upp smit sem tengist landamærasmiti og einstaklingi sem kannski fór ekki nægilega varlega í sinni sóttkví og við höfum fengið verulega dreifingu út frá því,“ sagði Þórólfur.

Nýlega hefur Þórólfur talað fyrir hertari aðgerðum á landamærunum og meðal annars lagt til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að ferðamenn til landsins verði settir í sóttvarnarhús á meðan sóttkví varir.

Þórólfur ræddi einnig í þættinum áhyggjur sínar varðandi ný hættulegri afbrigði veirunnar og seinagang í bólusetningum hér á landi.

Sjáið viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.