Fjöldi fólks sótti gosstöðvarnar í gær þrátt fyrir að svæðið hafi verið lokað. Björgunarsveitarhópar björguðu um tíu manns sem höfðu hringt í neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð.

„Það var hundleiðinlegt veður og svartaþoka og þau höfðu villst á leiðinni. Það var enginn slasaður en fólk var orðið kalt, blautt og rammvillt,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Ekki er vitað hversu margir gengu að gosstöðvunum í gær en Davíð segir að þónokkur umferð hafi verið að svæðinu.

„Þarna voru margir erlendir ferðamenn, sem eru þá kannski ekki meðvitaðir um hætturnar og stöðuna á lokunum og veðri, við getum gert betur í að tryggja að allir séu vel upplýstir,“ segir Davíð.

Hann segir margt mega lærast af síðasta gosi. „Á endanum var farið í það að hafa landverði á staðnum til að upplýsa fólk og kynna því hætturnar, ég held það gæti gefist vel.“