Síðasta sumar leituðu daglega einn til tveir á bráðamóttöku vegna slysa á rafhlaupahjóli. Tölur Samgöngustofu og Landspítala sýna að fræðslu um notkun og öryggi þessara hjóla skortir.

Samgöngustofa ætlar að hefja fræðsluátak í dag um rafhlaupahjól af þessum sökum, enda er mörgum óljóst hvort og hvaða reglur gilda um aksturinn. Til að stuðla að auknu öryggi hefur Samgöngustofa gefið út fræðslumyndband, sett upp upplýsingasíðu og einblöðunga á íslensku, ensku og pólsku um helstu öryggisatriði.

Vinsældir rafhlaupahjóla hafa aukist mikið að undanförnu hér á landi enda frábær farartæki séu þau notuð rétt. Um fimmti hver Reykvíkingur notar rafhlaupahjól og er notkunin mest í aldurshópnum 18 til 24 ára. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun Gallup fyrir Reykjavíkurborg, en ætla má að notkunin aukist enn meira yfir sumartímann. Rafhlaupahjólaleigum fjölgar og stækkar þjónustusvæði þeirra jafnt og þétt. Einhverjar leigur bjóða nú upp á þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og er því ljóst að notendahópur þessara hjóla fer ört stækkandi.

Bent er á að foreldrar þurfi að kynna sér hjólin vel áður en þau setja þau í hendur barna sinna og bera ábyrgð á að undirbúa þau.