Leið­toga­fundur At­lants­hafs­banda­lagsins, NATO, hófst í gær og stendur yfir til fimmtu­dags. Stríðið í Úkraínu er vita­skuld efst á baugi en stefnt er á að fjölga her­mönnum í Austur-Evrópu og skil­greina Rúss­land sem helstu ógnina við öryggi banda­lags­þjóðanna til næsta ára­tugar. Einnig verður ræddur stuðningur við Úkraínu, um­sókn Svía og Finna, af­staða banda­lagsins til Kína og lofts­lags­málin.

Á blaða­manna­fundi fyrir fundinn sagði Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, að 300 þúsund manna her­lið yrði sett í við­bragðs­stöðu á á­kveðnum stöðum. Í dag er við­bragðsliðið í Austur-Evrópu 40 þúsund her­menn og var 13 þúsund fyrir her­töku Krím­skaga árið 2014. Þá verður þunga­vopnum og sér­stökum búnaði einnig komið fyrir í álfunni til að geta brugðist við ógn.

„Ég er viss um að Moskva og Pútín for­seti skilja öryggis­tryggingar okkar. Skilja hvaða af­leiðingar það hefur að ráðast á eitt NATO ríki,“ sagði Stol­ten­berg.

Meiri­hlutinn af við­bragðsliðinu er stað­settur í Eystra­salts­ríkjunum og Pól­landi. Varnirnar verða styrktar þar og í Rúmeníu, Búlgaríu, Ung­verja­landi og Slóvakíu.

NATO fundurinn kemur í beinu fram­haldi af fundi G7-ríkjanna í Schloss Elm­au í Þýska­landi. Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra kom hins vegar beint af Haf­ráð­stefnu Sam­einuðu þjóðanna í Lissabon og flutti hún erindi í gær um lofts­lags­málin og öryggi banda­lagsins.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Recep Erdogan, forseti Tyrklands, mættust í gær.
Mynd/Getty Images

Auk þeirra 30 ríkja sem eiga aðild að NATO verða leið­togar Sví­þjóðar og Finn­lands á fundinum sem og leið­togar Suður-Kóreu, Japans, Ástralíu og Nýja-Sjá­lands sem eru meðal nánustu banda­manna banda­lags­ríkjanna. Er það talið til marks um mikil­vægi þessa fundar hjá vestur­veldunum og inn­legg þessara ríkja mun mestu skipta í um­ræðunni um lang­tíma­stefnu gagn­vart Kína. Einnig verður for­sætis­ráð­herra Georgíu á fundinum.

Magda­lena Anders­son, for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar, og Sauli Nini­stö, for­seti Finn­lands, funduðu með Recep Erdogan Tyrk­lands­for­seta og Stol­ten­berg. Á fundinum féllu Tyrkir frá því að standa í vegi fyrir aðild Finn­lands og Sví­þjóðar að At­lants­hafs­banda­laginu. Tyrkir voru þar til í gær eina hindrunin fyrir inn­göngu fyrr­nefndu ríkjanna.

Þetta er ekki það eina sem gæti reynst pólitískt flókið á fundinum. Einnig hvernig hin nýja hernaðar­upp­bygging í Austur-Evrópu verður gerð. Talið er að Banda­ríkja­menn vilji að hún verði að mestu leyti borin uppi af Evrópu­mönnum og Evrópu­menn hafa undan­farið sýnt vilja til að efla heri sína, til dæmis Þjóð­verjar. Hins vegar telja Evrópu­ríkin að Banda­ríkja­menn verði að spila lykil­hlut­verk í vörnum Evrópu. Í dag eru alls 70 þúsund banda­rískir her­menn á her­stöðvum í Evrópu. Talið er að NATO geti náð sátt um að þessi tala hækki í 100 þúsund og verði að stærstum hluta í Þýska­landi og Pól­landi.